149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við í ráðuneytinu höfum gert úttekt á því hvert aðgengi almennings um gjörvallar byggðir landsins er að sérfræðilæknaþjónustu. Það er sannast sagna mjög mismunandi og nánast tilviljunarkennt á köflum hvaða aðgengi er fyrir hendi. Það þarf því að ná utan um þennan þátt. Það erum við að gera með tvennu móti. Í fyrsta lagi með því að samningar við sérgreinalækna feli í sér einhvern áskilnað um að þjónustan sé veitt víðar en á höfuðborgarsvæðinu og í öðru lagi með því að styrkja stöðu Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri til að vera bakhjarl í því að veita tiltekna sérfræðiþjónustu á sínu svæði. Þetta er að hluta til komið til framkvæmda og verður gert enn betur. Þar er líka afar mikilvægt að við skilgreinum það fyrir landið allt hvaða sérgreinar það eru sem allir ættu að eiga aðgengi að allan ársins hring. Það á ekki við um allar sérgreinar, einungis sumar. Við erum að ná utan um þetta með þessu móti.