151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég fékk fyrr í vikunni, eins og kannski margir þingmenn, bréf, sem er opið bréf til stjórnar Úrvinnslusjóðs. Bréfið er skrifað af Sigurði Halldórssyni, framkvæmdastjóra Pure North Recycling, sem ég hygg að sé eina fyrirtækið á Íslandi, því miður eina fyrirtækið, sem endurvinnur plast, aðallega rúllubaggaplast. Í bréfinu kvartar fyrirtækið yfir seinagangi við afgreiðslu á erindi þess um að breyta flutningsjöfnunargjaldinu svokallaða til að stuðla frekar að endurvinnslu hér á landi. Það kemur fram í bréfinu að ekkert af því landbúnaðarplasti sem flutt hefur verið óunnið frá Íslandi síðastliðin ár hafi verið endurunnið í Evrópu heldur fari þetta í gegnum miðlara í Hollandi og skili sér á endanum til Malasíu eftir að markaðir í Kína hafa lokað. Það hryggir mig mjög að kerfið okkar sé ekki betur í stakk búið til að tryggja að við séum með raunverulegt hringrásarhagkerfi sem virkar.

Það er nefnilega þannig, virðulegur forseti, að það eru verðmæti í ruslinu okkar. Við verðum að stöðva grænþvott og útflutning á sorpi þegar ekki er hægt að rekja hvað af því verður. Við ættum að styðja við íslenskt hringrásarhagkerfi. Við þurfum að finna umhverfisvænar og hagkvæmar lausnir til að endurnýta og endurvinna sorpið okkar. Þessar lausnir verða ekki til á skrifborðum embættismanna. Þær verða til úti í atvinnulífinu, hjá frumkvöðlum þessa lands, og hlutverk stjórnvalda er að tryggja að umhverfið og réttu hvatarnir séu til þess að hér verði til öflugur endurvinnsluiðnaður.