152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[18:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við erum hér að ræða stórt og mikilvægt mál, frumvarp til laga um fjarskipti. Þetta er í þriðja skipti, eins og fram hefur komið, sem málið er til umræðu hér í þingsal og ég bind vonir við að það klárist fyrir vorið fljótt og örugglega. Ég sat í umhverfis- og samgöngunefnd í fyrri tvö skiptin en geri það ekki núna þannig að ég hef ekki sömu aðkomu að málinu og þá og ætla mér þar af leiðandi ekki að fara á dýptina í málinu sem slíku, það hafa aðrir þingmenn gert hér á undan mér, m.a. fulltrúi Viðreisnar í umhverfis- og samgöngunefnd, hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. En mig langar til að drepa á nokkrum atriðum.

Það er rétt sem fram hefur komið hér og hæstv. ráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir kom líka inn á í andsvörum sínum fyrr í dag að frumvarpið fjallar vissulega um aðra þætti en eingöngu öryggi og varnaratriði sem þingmönnum hefur eðlilega orðið tíðrætt um hér í ljósi stöðunnar. Þetta er frumvarp sem varðar mikilvæga innviði, búsetuskilyrði einfaldlega um landið. Þetta er eiginlega tvíþætt, þetta varðar búsetuskilyrði á landinu, bara að hér sé hægt að búa yfir höfuð, og síðan á hinum ýmsu stöðum á landinu og þar hefur náttúrlega verið pottur brotinn og stendur vonandi til bóta. Við erum að tala um frumvarp sem varðar samkeppni, neytendur og síðan þessar öryggisógnir og viðspyrnu ríkisins gegn ýmissi vá, hvort sem það er náttúruvá eða utanaðkomandi vá að öðru leyti. Fjarskiptaöryggi og þjóðaröryggi er einfaldlega undir. Markmiðið er að tryggja aðgengileg, greið, hagkvæm, skilvirk og örugg fjarskipti hér á landi, svo að ég telji þetta upp, og auka vernd og valmöguleika neytenda, stuðla að virkri samkeppni, hagkvæmum fjárfestingum og nýsköpun á fjarskiptamarkaði. Þetta er það sem við þurfum að gera með kerfið okkar. Tryggja að öllum landsmönnum og fyrirtækjum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu og háhraðanetum, föstum og þráðlausum netum. Það er grundvallarskilyrði fyrir okkur. Vegna framfara í tækni og þjónustu er gildandi regluverk að mörgu leyti úrelt og það er löngu kominn tími á að taka hér myndarlega til hendinni og þingmenn hafa margir farið vel yfir það af hverju fyrri tilhlaup ríkisstjórnarinnar hafa ekki heppnast. En við bindum vonir við að það verði breyting á núna.

Það eru nokkur atriði sem mig langar til að ræða og ég ætla kannski að fá að leyfa mér, af því að ég sé að hæstv. ráðherra situr í salnum, að biðja hana um að koma í andsvör við mig ef hún hefur tíma til og nennu til að varpa ljósi á eitthvað sem ég er að velkjast með. Mig langar þó til að byrja á einu. Við vitum að fjarskiptanet og fjarskiptaþjónusta er undirstaða mikilvægrar samfélagslegrar og efnahagslegrar starfsemi og samfélagslegrar þróunar okkar og að styrkleiki fjarskiptaneta skiptir máli, ekki síst á landi eins og Íslandi með sínar landfræðilegu aðstæður. Norðurlönd hafa þá heildarlöggjöf sem okkur vantar núna sem byggist á því að það eru smíðuð lög og umgjörð um þessa heildarhagsmuni okkar. Við vitum að Atlantshafsbandalagið hefur ályktað að alvarleg öryggishætta felist í því að nánast öll starfsemi í nútímasamfélagi sé háð fjarskiptanetum. Þess vegna verða aðildarríki að tryggja að mikilvægir innviðir eins og fjarskiptainnviðir þoli áföll, þoli öryggisógn og geti veitt viðspyrnu gegn náttúruvá þó ekki væri annað. Þá fór ég að rifja upp, frú forseti, þegar ég var að undirbúa mig, að árið 2018, sem er bara hinum megin við hornið, er staðan sú að Ísland státar af toppeinkunn frá Alþjóðafjarskiptasambandinu í upplýsingatækni og fjarskiptum, en við eigum langt í land með að ná sömu stöðu í netöryggismálum. Það hefur verið staðan, Norðurlandaráð var með fund á Íslandi 2018 þar sem forsætisnefnd ráðsins samþykkti að beina þeim tilmælum til norrænna stjórnvalda að auka samstarf landanna á sviði netvarna og þá einnig samstarf við Eystrasaltsríkin. Það vill svo til, og það er kannski af því að þar átta menn sig á mikilvæginu, að ekki síst þessi lönd hafa náð hvað lengst á sviði netöryggis. Öndvegissetur NATO um netvarnir, er staðsett í Tallinn, svo dæmi sé tekið. Þessi góða tillaga var samþykkt í Norðurlandaráði, af forsætisnefnd Norðurlandaráðs, en ekki einhliða vegna þess að fulltrúar vinstri flokkanna í Norðurlandaráði studdu þessa tillögu ekki, þar með talið einn af ríkisstjórnarflokkum okkar, sá sem fer með forsætið, Vinstri græn. Það var athyglisvert þá og það er allt að því ógnvekjandi núna. Sú er bara staðan. Ég átta mig á því að hér koma fulltrúar Vinstri grænna ekki upp í pontu og tala gegn því að við herðum okkur í netöryggismálum, standa ekki gegn því að við þéttum samstarf okkar við vinaþjóðir og þjóðir sem standa með okkur í NATO. En óneitanlega veltir maður fyrir sér hvort þennan vandræðagang með þetta frumvarp megi að einhverju leyti rekja til þessarar afstöðu vegna þess að þetta snýst náttúrlega um samstarf á sviði þessara öryggis- og varnarmála sem má alveg snúa upp í það að það samstarf muni þurfa að halda, verði herjað á okkur. Mér finnst þetta athyglisvert og mig langaði bara að halda því til haga að við þurfum að hafa það í huga að ef við ætlum okkur að eiga skjól í samstarfi við aðrar þjóðir þá þurfum við líka að taka þátt í þessu verkefni. Ég veit að í svona netsamstarfi þá er keðjan ekki sterkari en veikasti hlekkurinn og við getum ekki leyft okkur að vera sá hlekkur.

Það er annað sem tengist netöryggismálum sem mig langaði sérstaklega að nefna. Þá erum við komin að þessari ágætu grein, 87. gr., um öryggishagsmuni vegna uppbyggingar fjarskiptaneta. Meðal helstu nýmæla og breytinga í frumvarpinu miðað við gildandi fjarskiptalög — nú er ég orðin eins og félagi minn, hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, að týna mér í pappírum. En það er sem sagt kveðið á um það í þessari grein frumvarpsins að grípa skuli til öryggisráðstafana til að bregðast við áhættuþáttum er varða brýna almanna- og öryggishagsmuni við þróun, uppbyggingu og rekstur fjarskiptaneta. Ráðherra er sem sagt veitt heimild til að setja reglugerð um að búnaður í tilteknum hlutum innlendra fjarskiptaneta sem teljast viðkvæmir með tilliti til almannahagsmuna eða þjóðaröryggis skuli í heild eða ákveðnu hlutfalli vera frá framleiðanda í ríki sem Ísland á öryggissamstarf við eða ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þessi víðtæka reglugerðarheimild heimilar ráðherra að grípa til svona afgerandi ráðstafana án þess að fara í gegnum þingið hverju sinni og ekki er heldur útskýrt nægilega, þykir mér, hvernig þetta öryggismat fer fram hverju sinni og hver staða fjarskiptafyrirtækja er ef þeim er fyrirskipað að skipta um búnað. Er bótaréttur til staðar o.s.frv.? Spurningin sem ég hefði áhuga á að fá samtal um við hæstv. ráðherra er: Var þetta eina leiðin að búa svo um hnútana hér að með reglugerðarheimild geti ráðherra eða ríkisstjórnin innleitt öryggismat og kröfur annarra án sjálfstæðrar skoðunar og án aðkomu þingsins? Það er eiginlega það sem ég hef áhuga á af því að ég trúi eiginlega ekki öðru, sérstaklega í ljósi þess hve langan tíma málið hefur verið í meðförum þingsins, en að þetta hafi verið skoðað af því að gagnrýnin hefur komið upp og þessar spurningar vaknað. Hvílir einhver sönnunarbyrði á, þurfa að vera einhverjar upplýsingar? Ég held að enginn sem fylgist með velkist í vafa um að hluti a.m.k. af ástæðunni fyrir þessum ágreiningi sem varðar fjarskiptarisana — við erum þá að tala um kínverska fjarskiptarisann Huawei og kröfur Bandaríkjamanna — snúi að hreinræktuðum viðskiptahagsmunum. Erum við nægilega örugg um að við séum ekki leiksoppar þar og séum ekki að beita þessu reglugerðarákvæði, þessu kjarnorkuákvæði, nema við teljum fullvíst að örygginu sé ógnað? Mig vantar einhvern veginn nánari fullvissu þar og a.m.k. að fá að eiga orðastað við ráðherra um það.

Síðan er það kannski regluþunginn í frumvarpinu. Það er svo sem af nægu að taka. Við þekkjum að við innleiðingu Evrópureglugerða hefur það gjarnan gerst að íslensk stjórnvöld, og nú horfi ég til baka í fjórðung aldar, hafi sett þyngri kvaðir eða þrengri mörk en gert hefur verið á vettvangi Evrópusambandsins, látið eitthvað fljóta með, nýtt sér ferðina ef svo má segja. Svo það sé bara sagt þá er þetta ekki skemmtilegasti eða auðlesnasti textinn oft og tíðum og stundum hefur þetta bara runnið í gegn. Spurningin er hvort raunin sé mögulega sú hér og það væri ágætt að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra á því hversu vel þessa hefur verið gætt. Ég spyr vegna þess að fulltrúar atvinnulífsins sem voru með umsagnir, Samtök atvinnulífsins annars vegar og Samtök iðnaðarins hins vegar, telja að þetta eigi sérstaklega við þetta frumvarp og leggja til að það verði endurskoðað. Nú veit ég að þessi samtök eru mjög öflug hagsmunasamtök fyrir sína umbjóðendur og það er full ástæða til að hafa það í huga. En þetta er alla vega spurning sem kviknar, ekki síst vegna þess að það er mjög mikilvægt að á sama tíma og við tryggjum öryggi og hagsmuni neytenda og byggjum upp öruggt net þá sé samkeppnishæfni fyrirtækjanna tryggð því að þau eru nú þáttur í þessu öllu saman. Ég er ein þeirra sem trúa því að ef samkeppnishæfni fyrirtækja er tryggð þá séum við að tryggja hag neytenda að sama skapi. Það gerum við með því m.a. að tryggja að ákvæði laga verði ekki meira íþyngjandi en þörf krefur.

Að lokum er ég að velta sömu hlutum fyrir mér og hafa komið hérna fram í síðustu ræðum og umræðum en það er gjaldtakan við endurnýjun tíðniheimilda. Þetta eru takmörkuð gæði. Mér fannst mjög áhugavert að heyra orð hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, sem reyndar er fyrrverandi umhverfisráðherra og nálgast flest mál með þeim gleraugum, sem er gott, ekki síst á þeim tímum sem við lifum nú. Hún talaði um að hér þyrfti svokallað auðlindaákvæði, ef ég hef rétt eftir. Ég velti því líka fyrir mér. Þetta er náttúrlega viðkvæmt púsluspil þegar við horfum til þess nákvæmlega að við þurfum að byggja upp og við þurfum að tryggja samkeppnishæfni en við þurfum líka að passa þessa hluti. Þá hefði ég áhuga á að heyra, svo ég fái að halda áfram með óskalistann til hæstv. ráðherra, hvort það væri eitthvað sem hefði verið skoðað, þ.e. hvernig staðið er að þessari úthlutun. Það er nú kosturinn við það að ræða hér mál vel og vandlega í 1. umr. að sú umræða á með réttu að vera veganesti inn í störf nefndar þannig að mögulega er þetta eitt af því sem hæstv. ráðherra beinir til umhverfis- og samgöngunefndar, sem er jú líka með umhverfismálin á sinni könnu, að skoða betur. Mér finnst þetta alla vega áhugavert innlegg vegna þess að þeim er nefnilega alltaf að fjölga þessum auðlindum okkar sem eru takmörkuð gæði. Þau verða sífellt dýrmætari og þess vegna verður sífellt mikilvægara að við gætum þess hvernig þeim er úthlutað.

Ég er eiginlega komin á endastöð. Ég greip niður í þetta mál hér og hvar, þessi atriði sem mér þykja mikilvægust út frá minni svona takmörkuðu yfirsýn í sjálfu sér yfir málið. Ég mun auðvitað fylgjast vel og náið með málinu í meðförum nefndar og hlakka til að fá það aftur til í 2. umr. Fyrst og síðast hlakka ég til þess að sjá það verða að veruleika að við fáum hér heilsteypta löggjöf um fjarskiptin sem er í takt við þá tíma sem við lifum núna. Mikilvægið er svo ótvírætt fyrir okkur að öllu leyti.