153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sveigjanleg starfslok.

[11:28]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Okkar fjölbreytta og vaxandi samfélag skortir starfskrafta og bregst við með stórfelldum innflutningi á starfskröftum frá fjölmörgum þjóðum. Á meðan því vindur fram skiptir það fólk hundruðum á ári hverju sem gert er að hætta störfum fyrir aldurs sakir þó að það sé fullhraust og hafi vilja til áframhaldandi starfa. Vinnan göfgar jú og viðheldur snerpu, gleði og árvekni. Hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra segir réttilega í nýlegum þætti Dagmála á sjónvarpsrás Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

„Hér þarf að ryðja úr vegi hindrunum til að auka hagvöxt og lífsgleði. Ég er á því að við þurfum líklega að hækka eftirlaunaaldurinn, hafa það valfrjálst þannig að við séum með fleiri störf og lengur.“

Ráðherrann vísaði til þess að aðrar þjóðir hafi hækkað eftirlaunaaldur og bendir réttilega á að Íslendingar hafi ánægju af því að vinna. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir lagði fram á síðasta löggjafarþingi tillögu til þingsályktunar um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og var tillagan studd af þingmönnum úr fjölmörgum flokkum. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram frumvarp um afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna en óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Fyrsta skrefið í rétta átt hefur verið stigið með tvöföldum frítekjumarksins. Næsta skref þarf að stíga til fulls. Á yfirstandandi þingi hafa Miðflokksmennirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason lagt fram tillögu í sjötta sinn um breytingu á gildandi lögum sem felur í sér hækkandi starfslokaaldur ríkisstarfsmanna þar sem vísað er til þess m.a. hve mikill auður liggur í þekkingu og reynslu fólks sem til að mynda hefur unnið sem sérfræðingar eða embættismenn um langa hríð. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, og þá ekki síst orða sjálfs hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra, vil ég því spyrja hvort hér gæti ekki óvenju mikils samhljóms þvert á ólíka flokka, bæði meiri og minni hluta. Þá spyr ég sömuleiðis: Er eftir nokkru að bíða með að fínpússa og samræma hér hin sameiginlegu meginsjónarmið í löngu tímabæru frumvarpi er stutt yrði (Forseti hringir.) miklum meiri hluta skynsamra þingmanna allra þeirra flokka sem hér hefur verið vitnað til?