Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[13:40]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Hún er mjög mikilvæg og þessi skýrsla er mjög mikilvæg ábending og áminning fyrir okkur um hvað við megum gera betur. Ég held að við ættum kannski, bæði við hér í þingsal en ekki síst stjórnvöld, að reyna að beina sjónum okkar að þeim ábendingum sem þarna er þó að finna og hafa minni áhuga á því sem búið er að gera. Ég held að það væri gott fyrir okkur að reyna að horfa fram á veginn: Hvar getum við gert betur?

Mig langar að nota minn stutta tíma hér til að tala um ákvarðanir í umgengnis- og forsjármálum. Bent er á það í skýrslunni að GREVIO-nefndinni þykir ekki nægjanlega horft til ofbeldis sem átt hefur sér stað gagnvart börnum eða sem börn hafa orðið vitni að, sem hefur þá beinst gegn foreldrum barnanna þegar teknar eru ákvarðanir í umgengnis- og forsjármálum. Þetta get ég staðfest, hafandi verið lögmaður í þessum málaflokki, að er allt of lítið horft til, bæði af hálfu sýslumanna en líka af hálfu dómstóla, sérstaklega þegar um er að ræða börn sem hafa orðið vitni að ofbeldi gagnvart hinu foreldrinu. Það virðist vera sem að viðhorfið sé, já, af því að barnið sjálft varð ekki fyrir höggunum þá beri ekki að líta til þess. En rannsóknir sýna að ofbeldi sem beinist gegn nánum aðstandanda að barninu ásjáandi hefur jafnvel meiri áhrif og langvarandi á líðan og heilsu til frambúðar en höggin sem á barninu dynja. Við verðum að stuðla að því að þeir sem hafa með þessi mál að gera taki meira tillit til þessa.

Ég vildi óska þess að við hefðum meiri tíma til að tala um þetta en ég vildi koma inn á þetta og hvetja stjórnvöld til þess að búa til regluverk sem tryggir það að börn sem verða vitni að ofbeldi í nánum samböndum inni á heimili fái einhvers staðar skjól.