143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[15:57]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu fyrir að biðja um þessa umræðu sem er mjög þörf.

(Forseti (EKG): Ég bið hv. þingmann að nefna hv. þingmenn með fullu nafni.)

Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrirgefðu. Meginstefið í þessum fjárlögum er að þeim skuli skila hallalausum. Ástæðan fyrir því er að við verðum að lækka skuldir ríkisins og draga með því úr vaxtabyrði þess. Eins og stendur eru vaxtakjör í heiminum nokkuð hagstæð en um leið og vextir á alþjóðlegum mörkuðum hækkuðu mundi róður ríkissjóðs þyngjast til muna. Það sem ég legg áherslu á hér er að við verðum að leggja aukið fé til Landspítalans, það er engin spurning í mínum huga, og það er þessi tala sem nefnd hefur verið, 3 milljarðar kr., næstu árin til þess bara að ekki verði þarna algjört skipbrot.

En ég vil ekki gera það öðruvísi en svo að við finnum til þess fjármuni innan þess 580 milljarða kr. rekstrarreiknings sem við höfum umleikis frá skattborgurum þessa lands. Þar hljóta að vera peningar til að setja í þjóðarsjúkrahús okkar án þess að það kalli á meiri skuldasöfnun og halla á fjárlögum.