149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[16:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þennan fund allt of mikið heldur fara yfir nokkur meginatriði sem skipta máli í mínum huga. Það er nú einu sinni þannig að stærsti tekjustofn hins opinbera eða kannski um þriðjungur eru þeir skattar sem eru lagðir á tekjur og hagnað einstaklinga. Með endurdreifingu á hluta þeirra tekna sem ríkissjóður aflar eru stjórnvöld í færum, ef þau svo kjósa, til að styðja við ákveðna hópa sem eftir atvikum gætu verið barnafjölskyldur, leigjendur eða tekjulágar fjölskyldur.

Við greiningu á áhrifum þessa kerfis á hag fólks eru auðvitað margir þættir sem koma til athugunar. Það er ekki bara hlutfall útsvars og tekjuskatts sem þarna skiptir máli heldur líka hvernig persónuafslátturinn er stilltur af. Til viðbótar við þetta kerfi eru tilfærslukerfin, þ.e. barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisbætur. Áhrif þessa alls á ráðstöfunartekjur einstaklinga ráðast af flóknu samspili margra þátta. Þá mætti telja upp m.a. verðlagsþróun, launaþróun, hvernig fasteignaverð þróast, tekjuskerðingarmörk, eignastöðu má nefna og fjölda barna og hjúskaparstöðu eftir því hvernig stendur á hjá fjölskyldum.

Ef ætlunin er að skoða þróun skattkerfisins yfir tíma þarf að hafa í huga að þróun þessara meginstærða, launa, verðlags og bótafjárhæða, hefur sjaldnast haldist í hendur. Það er mjög ítarlega rakið í skýrslu Alþýðusambands Íslands, sem út kom í ágúst 2017 og heitir Skattbyrði launafólks 1998–2016, að persónuafsláttur hefur frá aldamótum tæplega þróast í takt við verðlagsþróun og því síður í takt við launaþróun með þeirri afleiðingu að skattbyrði einstaklinga hefur hækkað af völdum minnkandi áhrifa persónuafsláttar.

Í þessari tilvitnuðu skýrslu er borin fram sú ályktun að tilfærslukerfin séu að mörgu leyti flóknari en sömu áhrif birtast þar engu að síður. Þróist bótafjárhæðir og skerðingarmörk ekki í hátt við verðlag, eignaverð eða þróun launa, getur niðurstaðan orðið sú að bætur sem ætlaðar eru til stuðnings dragast saman og stuðningurinn getur misst marks.

Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa lagt áherslu á það við það hvernig vaxtabótakerfið er stillt af að þess sé vel gætt að eignaskerðingum sé stillt í hóf vegna þess að fólk hefur ekki meira handa á milli þó að fasteignaverð eigin húsnæðis fari hækkandi.

Ég ætla að leyfa mér að vísa til meginniðurstöðu í þessari skýrslu Alþýðusambandsins. Þar getur að líta þá helstu niðurstöðu að fyrir alla tekjuhópa á því tímabili sem þar er greint, það er tæplega 20 ára tímabil, 18 ára tímabil, 1998–2016, hafi skattbyrði aukist í öllum tekjuhópum og mest hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Skýringarnar á þessu eru alveg ljósar. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun. Það hefur aukið skattbyrði lægri launa mest. Það er sömuleiðis rakið að stuðningur vaxtabótakerfisins hafi minnkað verulega vegna þess að bótafjárhæðir og skerðingarmörk hafa ekki hækkað í takt við laun og fasteignaverð. Það sama á við um stuðning við leigjendur.

Alþýðusambandið heldur því fram í þessari skýrslu að íslenska barnabótakerfið sé veikt og dragi eingöngu úr skattbyrði einstæðra foreldra og allra tekjulægstu para. Á því tímabili sem er þarna til skoðunar hafi barnabótakerfið veikst enn frekar því að bótafjárhæðir hafi rýrnað að raungildi og tekjuskerðingar aukist.

Að öllu samanlögðu hefur því dregið úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins.

Herra forseti. Flokkur fólksins leggur mikla áherslu á að fólk með tekjur sem ekki duga fyrir framfærslu greiði ekki skatt af slíkum tekjum. Skattleysismörkin eru núna ríflega 150 þús. kr. og stefna í að fara upp undir 160. En við erum óravegu frá þeirri viðmiðun sem getur að líta til að mynda af hálfu opinberra aðila þegar þeir birta framfærsluviðmið á vefsíðu velferðarráðuneytisins sem eru a.m.k. vel á fjórða hundrað þúsund, að ég ekki tali um ef húsnæðiskostnaður, sem ekki er þar talinn, er reiknaður með.

Ég vil nota þetta tækifæri og boða hér að Flokkur fólksins mun flytja áður en langt um líður þingsályktunartillögu sem hefur að markmiði annars vegar að jafna skattbyrði milli tekjuhópa þannig að þátttaka ríkra og fátækra í rekstri samfélagsins verði líkari því sem gerist og gengur annars staðar á Norðurlöndum og hins vegar að hlífa þeim sem eru með tekjur undir framfærslumörkum við að greiða samfélaginu skatta af þeim tekjum. Þessi tillaga mun stuðla að tilfærslu fjár innan skattkerfisins sem kemur fram í lægri skattheimtu hjá tekjulágu fólki og hærri hjá þeim sem hafa háar tekjur. Með þessari tillögu verður leitast við að vinda ofan af langvarandi þróun eins og þeirri sem ég rakti hér áðan og studdist þá við skýrslu Alþýðusambands Íslands, þróun þar sem skattbyrði hefur flust frá tekjuháum til tekjulágra.

Ég vil sömuleiðis greina frá því við þetta tækifæri að miðað við þá útreikninga sem liggja fyrir við undirbúning þessarar tillögu að kostnaður ríkissjóðs vegna þeirra breytinga á tekjuskatti sem þarna verður gerð tillaga um er hvergi nærri í líkingu við það sem útreikningar fjármálaráðuneytis gefa til kynna og hafa verið ofarlega í fjölmiðlum að undanförnu.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni en vil ljúka þessu með því að nefna að í þeirri heildarendurskoðun sem hlýtur að fara fram á tekjuskattskerfinu með þessum innbyggðu bótakerfum verði sérstaklega hugað að börnum og sérstaklega í því sambandi að barnafjölskyldum. Mannfjöldinn hér á landi er ekki sjálfbær í þeim skilningi að mannfjölgunin nái því marki sem þarf til að halda þjóðinni við. Þar er miðað við, og styðst ég við þekkta útreikninga, að hver fjölskylda þurfi að meðaltali að eiga 2,1 barn, eða börn, svona eftir því hvort hljómar betur. En við erum fjarri því. Það er þess vegna full ástæða til að huga vel að þeim þætti. Blessun fylgir barni hverju. Munum það. Og munum sömuleiðis að hvert barn er velkomið og það á að taka vel á móti nýjum Íslendingum og styðja við fjölskyldur þeirra. Minnumst þess að allt sem fylgir því að ala upp börn og sinna þeim kostar óhemju fé. Þetta þekki ég sjálfur með því að fylgjast með barnabörnum. Ég held að það væri mjög vel að í þeirri heildarendurskoðun sem hlýtur að fara fram á þessu kerfi væri hugað gaumgæfilega að barnafjölskyldunum.