150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

kynningarfundur í ráðuneyti á þingfundartíma.

[13:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég stóð í pontu í gær, átti orðastað við hæstv. forsætisráðherra og kvartaði undan samráðsleysi stjórnvalda við þingheim um áform í samgöngumálum. Það bar þann árangur að hæstv. samgönguráðherra boðaði til sérstaks kynningarfundar um áform ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum en það vill svo skemmtilega til að nú þegar við erum að fara að ræða hér skattstefnu ríkisstjórnarinnar eru tveir þriðju hlutar þingsins boðaðir á kynningarfund á sama tíma í samgönguráðuneytinu.

Ég velti fyrir mér hvar virðingin sé fyrir störfum þingsins ef það er virkilega ætlast til þess að þingmenn víki frá umræðu um skattstefnu og skattamál ríkisstjórnarinnar til að sækja kynningarfund uppi í ráðuneyti. Þetta finnst mér einstaklega illa skipulagt og hlýt að gera athugasemd við það því að ég hef fullan hug á að kynna mér stefnu stjórnvalda í samgöngumálum en ég hef líka fullan hug á því að ræða skattapólitík þessarar ríkisstjórnar.