151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:17]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Pylsa á Bæjarins bestu kostar jafnt ríka sem fátæka sömu 470 krónurnar, skattalækkanir upp á einhverjar prósentur eða prósentubrot skila meiri peningum til ríks fólks en fátæks en gjaldskrárhækkanir kosta fólk jafn mikið óháð tekjum. Nú hef ég í ansi mörg ár kallað eftir því að gerð verði einhvers konar greining á því hversu mikið er verið að velta kostnaði yfir á almenning með þessum endalausu gjaldskrárbreytingum. Það hefur litið þannig út að verið sé að búa til einhverjar skattalækkanir sem líti vel út á blaði en á sama tíma sé verið að hækka gjöld á almenning og þetta komi í raun verr niður á þeim sem eru með lægri tekjur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Getur hann fullyrt að þessar breytingar, þessar gjaldskrárhækkanir, komi ekki verr niður á þeim sem eru tekjulægri?