152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing fráfarandi umhverfisráðherra.

[14:04]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég kem hér upp til að bregðast við ummælum hv. þm. Óla Björns Kárasonar. Það er bara þannig að stjórnarandstaðan hefur það ekki alltaf í hendi sér að geta sinnt þessu mikilvæga aðhaldi og fengið það fram af því að það er náttúrlega meirihlutaræði hérna líka. Við báðum t.d. um þingfund, sumarþing, til að afgreiða og hefja umræðu um stjórnarskrárbreytingar en ekki var fallist á það. Við báðum um þingfund í kjölfar Ásmundarsalarmálsins milli jóla og nýárs þar sem ráðherra virti ekki sóttvarnareglur og það var ekki fallist á þingfund. Það eru ýmsar fyrirspurnir í nefndum sem ekki fá svör, þannig að þetta er ekki alveg svona einfalt.

Það sem ég held að við ættum að spyrja okkur að núna eftir þetta, sem ég væri líka til í að eiga umræðu um og er mikilvægt, er þetta: Ef við ætlum að halda áfram að hafa haustkosningar í staðinn fyrir vorkosningar og skapa þessar aðstæður þar sem við höfum takmarkaða getu til að hafa aðhald með þinginu út af löngum pásum frá þingstörfum, sem er nokkuð sem við þurfum að skoða í heildarsamhengi, verðum við að átta okkur á hvort það sé raunverulega til styrktar þingræðinu, því að ég held að svo sé ekki.