Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:40]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Frú forseti. Fyrir mér er þetta spurning um þjóðaratkvæðagreiðslu og lýðræði. Ég styð lýðræði og ég styð að þjóðin taki upplýstar ákvarðanir og ég treysti þjóðinni fyrir því að taka góðar ákvarðanir, að hver og einn geti verið gagnrýninn, tekið upplýstar ákvarðanir og fundið út: Bíddu, hvað er það besta fyrir mig? Mér finnst nefnilega svolítið villandi þegar verið er að tala um að það hafi verið kosið um þetta í kosningunum síðastliðið haust. Var verið að kjósa um áframhaldandi viðræður við ESB? Ég tók alla vega ekki eftir því að það hafi verið kosið um það. Það var verið að kjósa um flokka en ekki bara eitt mikilvægt mál. Það eru mörg mikilvæg mál, mikilvæg málefni, mismunandi einstaklingar. Það er ýmislegt sem kemur þar inn í þannig að það er ekki hægt að hengja það saman, alla vega ekki að öllu leyti. Þess vegna er mjög mikilvægt að við valdeflum þjóðina, að við segjum: Við erum með þetta mikilvæga málefni sem er greinilega áhugi fyrir, hvort sem það er á móti eða með, og við viljum leggja það í hendur þjóðarinnar að taka ákvörðun um, hvort Íslendingar myndu vilja fara í áframhaldandi viðræður og sjá hvað kæmi út úr því, eða ekki. Óttinn við það og hvernig talað er um að fá þjóðina með okkur í að ákveða þetta — það finnst mér bara frekar undarlegt og ekki mjög lýðræðislegt.

Þetta er risastórt mál sem búið er að tala um lengi og ég treysti þjóðinni til að taka upplýstar ákvarðanir, hver og einn einstaklingur. Ef þau hafa ekki kynnt sér þetta eða spáð mikið í þetta þá er tækifærið hér. Það er bara mikilvægt að við valdeflum þjóðina og fáum þjóðina með okkur í að spá í stór málefni eins og þessi. Auðvitað eru mikilvæg málefni. Það eru alltaf mikilvæg málefni, hvort sem það eru stríð og það er ýmislegt að gerast í heiminum. Það verður alltaf þannig. Sama á hvaða tíma Íslendingar ákveða að halda áfram eða ekki eða hvernig sem það er, þá verður aldrei sá tími þar sem það er ekkert mikilvægt að gerast þannig að þá sé rétti tíminn til að gera þetta. Það er bara mjög óraunhæft að hugsa þannig vegna þess að við vitum ekki hvað gerist í framtíðinni.

Ef við lítum til baka þá hefur alltaf verið eitthvert mikilvægt málefni á einhverjum tímapunkti og oftast mörg og mismunandi og gríðarlega stór, þannig að ég skil ekki alveg hvernig það tengist endilega vegna þess að það er ekkert hægt að ákveða hvað gerist í framtíðinni. Núna erum við hér og það eru einstaklingar sem myndu vilja halda áfram viðræðum og það er líka fullt af einstaklingum sem myndu örugglega ekki vilja halda áfram. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við stöndum vörð um lýðræðið þegar við erum með svona stórt mál eins og þetta og að við sýnum það að við viljum fá þjóðina með okkur og við viljum að þjóðin sé upplýst um þetta og taki ákvörðun með okkur, en ekki bara við hér.

Ég styð það þess vegna að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu þó að ég hafi ekki verið á þingi þegar þessi tillaga til þingsályktunar var lögð fram. En mér finnst bara mikilvægt að við pössum okkur á þessu og séum svolítið samstiga í því þegar við erum með svona mikilvæg málefni sem mikill hiti er í. Hér var talað um Brexit og talað um að það hefði verið svo erfitt fyrir bresku þjóðina að vera einhvern veginn klofin, ég hef heyrt það frá öðrum hv. þingmönnum í dag að það hafi tekið á þjóðina að ræða hvort þetta væri gott eða ekki þegar þessi atkvæðagreiðsla fór fram. Þá veltir maður fyrir sér: Bíddu, er lífið ekki bara svoleiðis? Er maður ekki bara ósammála eða sammála? Er maður ekki bara með eina skoðun og hinn með hina og við getum rætt það og samt setjumst við niður í kaffi saman? Ég skil ekki alveg að það verði eitthvað rosalega mikið vandamál fyrir íslenskt samfélag að fara í einhvers konar vegferð þar sem við þurfum — við höfum gert þetta áður og fólk er ósammála — ég skil ekki að það yrði eitthvað minni samstaða eða eitthvað svoleiðis meðal þjóðarinnar. Ég átta mig ekki alveg á því. Ég held að það sé bara hollt fyrir alla að mynda sér skoðun og fá upplýsingar og valdefla einstaklingana í landinu.