132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:30]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt að ekki væru komnir neinir fjármunir til sjávarútvegsráðuneytisins úr Þróunarsjóðnum. Ég er ekki viss um að þetta sé alveg rétt munað hjá hæstv. ráðherra. Ég hef grun um að það séu ekki mjög margir dagar eða vikur síðan veruleg fjárhæð, yfir 600 milljónir, var færð úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins inn á líklega reikninginn um aukið verðmæti í sjávarútvegi (Gripið fram í: Verkefnasjóðinn.) í verkefnasjóðinn í sjávarútvegsráðuneytinu. Ég man eftir umræðunni um Þróunarsjóðinn á sínum tíma þegar við reyndum að fá þeirri ályktun Alþingis fylgt eftir að eitthvað af þeim fjármunum sem í sjóðnum væru færu í að varðveita gömul skip. Þá var talað um að upphæðin sem út úr Þróunarsjóði kæmi gæti að hámarki náð kannski 500 milljónum. Ég hygg að þeir fjármunir sem sjávarútvegsráðuneytið fær úr uppgjöri Þróunarsjóðsins sé nær því að vera 700 milljónir og mér er nær að halda að ráðuneytið hafi þegar fengið yfir 600 milljónir af þeim fjármunum inn á sinn reikning. Ég furða mig á, miðað við þá ákvörðun sem tekin var á hv. Alþingi, ef Hafrannsóknastofnunin hefur ekki fjármuni til að standa straum af þessum 19 milljónum vegna aukinna loðnurannsókna sem allir máttu sjá fyrir.