136. löggjafarþing — 6. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[23:01]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt sem þarf að ræða og mun verða rætt þegar tími gefst til í framhaldinu á næstu dögum varðandi efnahagsmál, vexti og fleira sem hv. þm. Guðni Ágústsson nefndi. En úr því að hv. þingmaður vék sérstaklega að því, lagði lykkju á leið sína til þess að vekja athygli á því, að framsóknarmenn tækju að hluta til aðra afstöðu til málsins en við hinir stjórnarandstöðuflokkarnir — og er þó svo sem ekki mikill munur á því í sjálfu sér að greiða götu máls og greiða því atkvæði að það fari í gegn með afbrigðum og fái skjóta afgreiðslu en sitja hjá við endanlega afgreiðslu þess og vísa ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og meiri hluta hennar eins og alsiða er — má sem dæmi taka þegar fjárlög eru afgreidd og aðrir slíkir hlutir — og hinu að greiða því að mestu leyti atkvæði eins og mér skilst að Framsóknarflokkurinn ætli að gera — ætla ég í allri vinsemd að leyfa mér að minna hv. þm. Guðna Ágústsson á að honum yfirsást þó sá munur á aðstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins í þessu tilviki að við fórum ekki með viðskiptaráðuneytið í 12 ár, frá 1995 og fram á mitt ár 2007. Við einkavæddum ekki bankana þannig að ætli Framsókn sé ekki málið býsna skylt.