141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

mat á umhverfisáhrifum.

87. mál
[16:44]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum. Með þessu frumvarpi er verið að flokka framkvæmdir í A, B og C. Síðan er verið að leggja inn að þessar framkvæmdir í A, B og C skuli háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt gildandi lögum og að samhliða eigi að setja reglugerðir um A, B og C þannig að málsmeðferðin verði ekki sú sama hvað varðar A, sem er erfiðasti flokkurinn ef við getum orðað það svo, B sem er miðflokkur og C sem er þá um einfaldari framkvæmdir. Væntanlega er sú hugsun að baki þessari flokkun.

Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort samhliða þessu frumvarpi fylgi reglugerð um hvaða gögn skuli fylgja í hverjum flokki fyrir sig þannig að um leið og frumvarpið verði að lögum liggi það ljóst fyrir.

Hér stendur í b-lið 7. gr. að í stað orðsins „ráðherra“ í 5. mgr. komi „úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála“ og ég spyr: Þýðir það að málum sem vísað er til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála verði ekki hægt að vísa til æðra stjórnvalds sem er þá ráðherra eða er breytingin sú að úrskurði þeirrar nefndar verði hægt að vísa til ráðherra eða jafnvel fara með til dómstóla?

Þetta er allt vegna þess að margfræg stofnun, ESA, hefur gert athugasemdir við hitt og þetta og ég ætla líka að taka fram að það er dálítið skondið að sjá í íslenskum lögum, á bls. 3 er það, talað um kjarnorkuver og aðra kjarnakljúfa vegna þess að maður hefur á tilfinningunni að þetta sé víðs fjarri því sem við Íslendingar eigum nokkurn tíma eftir að standa frammi fyrir. Sömu sögu er að segja um ýmislegt varðandi járnbrautir á milli landamæra, það er harla sérkennilegt að hugsa sér það á Íslandi. Þetta var frekar útúrsnúningur en hitt vegna þess að þetta virðist augljóslega bein þýðing og þar af leiðandi fest með þessum hætti.

Í VII. kafla á bls. 17, um mat á áhrifum, er talað um að breytingarnar munu hafa í för með sér fjölgun tilkynninga til ákvörðunar um matsskyldu til Skipulagsstofnunar frá framkvæmdaraðilum. Það gefur augaleið. Síðan er reynt að draga úr áhrifum þeirrar fjölgunar með einfaldri málsmeðferð. Þá erum við komin að þeirri reglugerð sem ég ræddi áðan og hvort ljóst sé að hún liggi samhliða frumvarpinu verði það að lögum frá hinu háa Alþingi.

Annað vekur furðu mína sem fyrrverandi sveitarstjórnarmanns og það er á bls. 18 þar sem stendur:

„Mun breytingin hafa í för með sér aukið álag á sveitarfélög vegna fjölgunar umsókna til sveitarfélaga um framkvæmdaleyfi.“

Það er nú einu sinni þannig að engar framkvæmdir geta farið fram í sveitarfélögum nema kannski tíu fermetra skúr í garðinum heima hjá manni öðruvísi en að umræddur aðili fái framkvæmdaleyfi hjá sveitarfélaginu. Ég átta mig ekki alveg á í hverju þetta er fólgið og vænti þess að ráðherrann útskýri það aðeins frekar. Kannski misskil ég það sem þarna stendur en ég tel svo ekki vera vegna þess að framkvæmdir eru bundnar ákveðnum leyfum og skipulagi í hverju sveitarfélagi. Sveitarfélögin eru þeir aðilar sem veita framkvæmdaleyfi.

Í fylgiskjali I á bls. 45 stendur:

„Niðurstaða ráðuneytisins er að aukin vinna verður hjá sveitarfélögum vegna ákvæðis 7. gr. um að við útgáfu leyfis skuli leyfisveitandi kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu.“

Ég tel þetta hanga saman við það að sveitarfélögin verða að gefa út framkvæmdaleyfi til að hægt sé að hefja framkvæmdir á þessu sviði.

Ég þekki það að mál eru oft lengi í meðförum Skipulagsstofnunar. Mörg mál eru lengi í meðförum þegar kanna þarf og fara í mat á umhverfisáhrifum, bæði stórum og smáum, og ég spyr: Telur ráðherra ekki að tvennt þurfi að gerast, að fjölga þurfi þeim starfsmönnum sem sinna þessu verkefni hjá Skipulagsstofnun og setja skýrari mörk um afgreiðslutíma, sömuleiðis að hjá úrskurðarnefnd séu tímatakmörkin virt? Í ljósi þess sem þegar er í samfélaginu spyr ég hvort ráðherrann telji ekki ástæðu til að fjölga nefndarmönnum eða aðilum sem vinna samhliða með nefndinni.