144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég ætla að reyna að gera mitt besta til að svara spurningum frá hv. þingmanni sem beint var til mín.

Hvort ég hafi eitthvað fyrir mér í því að tekjulágir kaupi ekki raftæki. Það eru örugglega einhverjir tekjulágir sem kaupa raftæki, þegar staðan er hins vegar sú að þú hefur ekki peninga til þess að kaupa mat út allan mánuðinn segir heilbrigð skynsemi mér að þú farir ekki og kaupir þér raftæki fyrst.

Við getum alveg verið ósammála um það hvort þetta sé líklegt eða ekki, en svo tel ég vera.

Hvort það sé rétt að miða bara við tekjur lægsta hópsins. Það er sjálfsagt ekki rétt að miða bara við tekjur lægsta hópsins, en hins vegar hafa þeir sem hafa meiri fjárráð ýmsar fleiri leiðir til að komast af í samfélaginu. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að huga sérstaklega að því hvaða áhrif allt sem ríkið gerir hefur sérstaklega á tekjulægsta hópinn.

Svo hvort það mætti ekki leita leiða til að bæta tekjulágum upp með öðrum hætti. Jú, svo sannarlega mætti gera það. Það gætum við til dæmis gert með því að efla velferðarkerfið okkar, en til þess að efla velferðarkerfið okkar þurfum við líka að hafa sterka skattstofna. Nú hef ég sagt að ég telji þetta ekki endilega vera réttu leiðina til að auka skatta ríkisins, en þá held ég að (Forseti hringir.) mætti til dæmis benda á það að auka frekar skattana hjá þeim sem virkilega hafa það gott í samfélaginu.