145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[19:37]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, ég kannast við það að ég er ekki mikill talsmaður þess að nota skattkerfið sem tekjujöfnunarkerfi. Ég vil auðvitað nota skattana til að tryggja velferð borgaranna, nauðsynlega velferð borgaranna. Ég vil að atvinnulífið standi undir það góðum tekjum að menn geti lifað sómasamlegu lífi á þeim Ég hef engan áhuga á að jafna tekjur tveggja manna þar sem annar vinnur 100 tíma á viku en hinn 40 tíma í nafni einhvers konar réttlætis. Ég sé ekkert réttlæti í því einu sinni og hef aldrei séð það. Hér er því alltaf haldið fram að allar skattalækkanir okkar snúi að einhverjum hálaunamönnum en láglaunamenn sitji eftir. Öll þessi gjöld sem við erum að taka af, vörugjöld, tollar — þetta nýtist hlutfallslega miklu betur láglaunafólki. Svo koma þingmenn stjórnarandstöðunnar hver á fætur öðrum hingað upp og tala um tekjuskattinn sem dæmi, sem hér er verið að lækka óverulega, það er ekki eins og verið sé að gera stórar breytingar á þessu, og segja að einn fái 3 þús. kr. og annar bara 1 þús. kr., þetta sé bara gífurlegt óréttlæti.

Þegar skattar hækka þá eru útgjöld þeirra tekjuhæstu mest, alveg eins fer þetta í hina áttina þegar skattar lækka. Það er auðvitað þannig. En ég er bara að segja að skattar eins og þeir sem voru lagðir á af síðustu ríkisstjórn, endalaus gjöld út og suður, sykurskattur og hvað eina, gjöld á áfengi og tóbak, komu verst niður á þeim tekjulægstu. Svo allt í einu hafa menn rosalegar áhyggjur af því að þeir fái bara 1 þús. kr. en ég fái 3 þús. kr. Þetta nýtist auðvitað hinum tekjulægstu langmest þegar á heildina er litið.