148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:10]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um heimildarákvæðin. Hér er heimild til að ganga til samninga við Mosfellsbæ um að bærinn greiði samningsvexti í stað dráttarvaxta vegna máls sem Mosfellsbær tapaði gagnvart ríkinu. Mig langar að spyrja ráðherra hvaða upphæðir sé hér verið að tala um og hvaða samningsvöxtum hann ætli að tefla fram í þessum samningum. Ef þessi upphæð er 100 milljónir er þetta um það bil 60 milljónir sem ríkið gæfi hugsanlega frá sér miðað við lága samningsvexti í staðinn fyrir dráttarvexti. Hvernig stendur á þessu ákvæði?

Spurning númer tvö, annað heimildarákvæði. Það er óskað eftir heimild til að hægt sé að ganga til samninga við sveitarfélagið Bláskógabyggð um íþróttahús og sundlaug o.s.frv. Af hverju eru þessar eignir ekki bara einfaldlega seldar á frjálsum markaði? Nú eru fjölmargir aðilar að leita sér að tækifærum á þessum markaði. Mér finnst svolítið sérstakt að ráðherrann skuli fara fram á þessa heimild í ljósi þess að við erum hugsanlega að fyrirgera ákveðnum verðmætum fyrir hönd ríkisins, sem við ættum að sjálfsögðu ekki að gera.

... (Forseti (JÞÓ): Forseti vill árétta varðandi ræðustól. Flott, það er meðtekið.)