148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[14:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég myndi vilja geta skilað greinargóðri ræðu um hverja aukna fjárheimild, geta komist að því hvort ýmsar fullyrðingar í frumvarpinu séu nákvæmar eða ekki, en ég get það því miður ekki. Þetta frumvarp kom fram seint í gærkvöldi og búið er að vesenast í ýmsu öðru tengdu fjárlögum og öðru. Ég verð því að spyrja ráðherra hérna og biðja um útskýringar. Það er ýmislegt sem er mér finnst stangast á við fyrirætlun fjáraukalaga í lögum um opinber fjármál. Ég vil fá að vita um hverja heimild, auknar heimildir, óvæntar eða ótímabundnar eða þau sérstöku atriði sem lög um opinber fjármál krefjast að málið gangi í gegn samkvæmt.

Ráðherra talaði áðan um almenna varasjóðinn. Ég hefði áhuga á að vita hvernig almenni varasjóðurinn hefur verið notaður til þess að glíma við þær fjárheimildir sem fjallað er um í fjáraukanum. Það ætti að grípa til varasjóðanna áður en farið er í fjáraukann sérstaklega. Í lögum um opinber fjármál er tekið fram að ráðherra skuli án tafar gera grein fyrir því þegar stefnir í það að farið verði umfram fjárheimildir, gera greinargerð sem útskýrir hvað ráðherra hyggst gera til að koma í veg fyrir að farið verði umfram fjárheimildir.

Mig langar að spyrja ráðherra hvort slík greinargerð hafi borist t.d. fjárlaganefnd, eins og hún á að gera.

Ég sat í fjárlaganefnd á þar síðasta þingi og minnist þess ekki að hafa fengið slíka greinargerð. Ég minnist þess að hafa fengið svör um að þetta væri í skoðun og glímt yrði við það í fjárauka. Það fer náttúrlega algerlega gegn verklagi laga um opinber fjármál.

Mig langar til að spyrja hvort umfangið á fjáraukanum hafi verið greint, hvort það sé eitthvað minna en áður hefur verið. Það kom aðeins fram í andsvörum áðan að það væri kannski svipað og 2010. Mér þætti áhugavert að fá nánari tölur um það. Og það sem mér finnst gríðarlega mikilvæg spurning: Hefur verið stofnað til skuldbindinga út af einhverjum þeirra heimilda sem er verið að leita eftir fjárheimildum til í fjáraukanum? Er þegar búið að stofna til skuldbindinga gagnvart einhverjum af þeim málum sem hér er fjallað um?

Það var einnig talað um að úthlutun úr varasjóðum væri eftir á gjörningur. Miðað við það sem ég sagði áðan mótmæli ég því. Eins og ég sagði á ráðherra án tafar að gera grein fyrir því þegar farið er fram úr áætlun og útskýra hvernig hann ætlar að koma í veg fyrir það, ellegar koma og útskýra af hverju hann ætlar að nota varasjóðinn í að borga þann hluta sem fer umfram heimildir. Samkvæmt minni vitneskju hefur alla vega ekkert svoleiðis komið til fjárlaganefndar nema tilkynningar um að það séu ákveðnir veikleikar og fjárlagaliðir muni fara umfram heimildir. Miðað við það og umræðuna sem átti sér stað við fjárlög 2017, þar sem voru kynntar ákveðnar sviðsmyndir varðandi til að mynda hælisleitendamálin, þá koma tölurnar sem eru í fjáraukalagafrumvarpinu ekkert á óvart. Það var búið að gera ráð fyrir að sá fjárlagaliður færi umfram þær heimildir. En hins vegar var tiltölulega nýbúið að semja ný lög um útlendinga sem gáfu ráðherra heimild til að gera ýmislegt til þess að gera eitthvað sem myndi spara í þeirri framkvæmd.

Skoðum upphæðina. Þetta eru 2,4 milljarðar, segjum 2 milljarðar til að vera örugglega ekki yfir. Á sama tíma er Útlendingastofnun plús kærunefnd útlendingamála 900 milljónir. Það væri hægt að kaupa þrjár kærunefndir og tvær Útlendingastofnanir eða eitthvað svoleiðis aukalega fyrir þann pening, til að flýta fyrir málsmeðferð t.d., meðferð kærumála, svo að biðlistinn yrði ekki eins langur. Væri það hugmynd, að stækka við kærunefndina til þess að tækla biðlistann? Myndi það spara meiri pening á móti biðtímanum sem annars er til staðar? Það var ekkert svoleiðis tilkynnt til nefndarinnar, ekki reynt að grípa til neinna slíkra ráðstafana. Það er aðeins umfram heimildir til kærunefndar og Útlendingastofnunar en miðað við fjárhæðina, 2 milljarðar, hlýtur að mega nota eitthvað af því til að koma til móts við biðtímann sem er slæmur fyrir alla. Hann er slæmur fyrir okkur sem stöndum undir þeim kostnaði og slæmur fyrir þá sækja um hæli því að þeir eru í óvissu á meðan.

Fjallað var um heimildarákvæði áðan. Ég ætla því að láta það vera eins og er. En það þarf tvímælalaust að útskýra af hverju þau eru í fjáraukanum en ekki bara í fjárlögunum fyrir 2018 sem við erum að fjalla um núna. Það munar ekki mörgum dögum fyrir þessar heimildir að fá þær inn núna í fjáraukanum og fá þær inn þannig að þær verði komnar um áramótin. Ég skil þetta ekki, nema kannski sé búið að ganga til einhvers konar skuldbindinga. Mér þætti vænt um að fá útskýringar á því.

Ég vek líka athygli á helstu breytingum frumvarpsins þar sem er talað um 2,2% hækkun á fjárlögum 2017, þ.e. að frádregnum fjárheimildum vegna vaxtagjalda, sem er meira en hækkunin frá frumvarpinu 2018 í september/desember. Mér þótti það áhugavert í ljósi þeirra umræðna sem hafa verið um 2% hækkunina á frumvarpinu 2018 í september/desember. Þá er þessi fjárauki að bæta við meiru en þau fjárlög. Ég velti fyrir mér hversu gagnlegt það er að tala um aukin fjárframlög í fjárlagafrumvarpi 2018 ef við eigum kannski von á að fá önnur 2% í lok næsta árs. Hvað þýðir það fyrir gagnrýnina hérna? Það er allt í þessu sem brýtur gegn festunni sem á að vera grunngildi samkvæmt lögum um opinber fjármál. Við gerum þetta eftir hentisemi.

Það eru einmitt lög um opinber fjármál sem eiga að koma í veg fyrir slíka hentisemi í opinberum fjármálum. Ef þetta eiga að vera nýju vinnubrögðin skil ég ekki af hverju ekki er gert eitthvað núna. Á að fara í nýju vinnubrögðin eftir þetta eða einhvern tíma seinna? Hvenær á að byrja? Þetta eru atriði sem ég klóra mér í hausnum yfir og passa ekki alveg við það sem mér finnst verið að reyna að ná árangri í með lögum um opinber fjármál, með stjórnarsáttmála og öðru.

Einnig er talað um á blaðsíðu 40 að útgjöld til samgöngumála aukist um 1,8 milljarða vegna brýnna framkvæmda sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins. Hvernig passar það við tilgang fjáraukans? Ég skil það ekki. Þetta eru atriði sem samkvæmt lögum um opinber fjármál og tilgangi fjáraukalaga þarf nauðsynlega að útskýra. Hvaða tilvik eða atriði varðandi sérstöku frábrigðin sem leyfa fjáraukalög eru útskýring á umsókn um aukna heimild? Núna í lok desember sé ég ekki að verið sé að bíða eftir að fá þennan pening. Mér finnst líklegra að búið sé að stofna til þessara skuldbindinga og leitað sé heimilda eftir á. Það passar illa við ásökun um eftir á gjörning sem hefur með varasjóðinn að gera. Mér finnst þetta ekki passa saman. Mér þætti vænt um að fá betri útskýringu á því hvernig þetta liggur.

Varðandi vaxtagjöld og aukinn kostnað vegna þeirra, þar sem það gjaldfellur allt á þessu ári: Það er verið að kaupa upp vexti næstu ára með því að kaupa upp þetta bandaríska lán. Það væri alveg eins hægt að láta þá vexti sem voru reiknaðir til næstu ára gjaldfalla á þau ár en ekki alla á 2017. Mér sýnist það einmitt hentugt til að búa til ákveðið svigrúm fyrir næstu ár fremur en að láta þá skella á 2017. Ég veit ekki hvort eitthvað er óeðlilegt við það en mér fannst þetta áhugaverð athugasemd til að bera saman, hvort það væri eðlilegt. Kannski er það eðlilegt, ég veit það ekki, kannski ekki. En það væri áhugavert að greina betur hvort eitthvað er í reikningshaldi almennt séð sem mælir með því eða ekki.

Eins og ég sagði náðist ekki að fara í gegnum allt þetta á þeim stutta tíma frá því að frumvarpið var lagt fram, því að það er nóg annað að gera í lok desember. Maður náði að renna yfir nokkur mál.

Varðandi 10.20, trúmál. Það var talað um það í andsvörum áðan. Hvernig er þetta ófyrirséð? Hvaða áhrif hefur ákvörðun kjararáðs nýlega á laun presta og biskupa? Er búið að reikna það inn í þetta? Var kannski verið að bíða með fjáraukann þangað til kjararáð væri búið að klára svo að örugglega væru réttar tölur í því? Það væri áhugavert að vita. Ég skil ekki af hverju þetta er ófyrirséð, nema út af ákvörðun kjararáðs. En grunnurinn að því, óháð ákvörðun kjararáðs — það er ekkert óvænt við það, sem er örugglega langstærstur hluti fjármagnsins.

Það er talað í stjórnsýslu dómsmálaráðuneytis um Frontex, landamærastofnun Evrópu, sem ekki næst að bregðast við í gildandi fjárlögum. Mér finnst þetta beinlínis ganga gegn tilgangi fjáraukalaga. Þessi orð segja að þetta sé ekki eitthvað sem er óvænt eða ófyrirséð. Það náðist bara ekki að bregðast við því. Við höfðum ekki tíma og ætlum að gera það seinna í fjáraukanum. Mér finnst þetta sýna fram á að ekki sé farið eftir lögum um fjárauka. Þetta eru ekki það háar upphæðir, 46,5 millj. kr. Af hverju er ekki búið að gera grein fyrir þeim í millifærslu innan málefnasviðs, málefnaflokka eða í varasjóði?

Þetta er hin mjög svo stutta og grófa yfirferð fjáraukalagafrumvarpsins sem ég náði seint í gærkvöldi ásamt því að reyna að klára nefndarálit um fjárlög 2017, auk ýmislegs annars sem hefur gengið á. Ég vænti þess og vona að við getum tekið þessa umræðu aðeins nákvæmar og farið að nota í alvörunni lög um opinber fjármál. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra hefur áhuga á að fara eftir lögum um opinber fjármál þar sem það var hugðarefni hans að setja lögin. Það að fara eftir þeim ætti að vera lágmarkskrafa, alla vega að reyna að útskýra hvernig þær fjárheimildir sem verið er að sækja um passa við lögin og vera heiðarlegri með það á einhvern hátt ef það passar ekki og biðla til Alþingis: Gætuð þið vinsamlegast hjálpað okkur því að við erum í ruglinu.