149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[16:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þurfi að skoða hvert og eitt þessara ákvæða. Það eru ólíkar skýringar á bak við hvert og eitt þeirra, hvers vegna við höfum þurft að framlengja þetta bráðabirgðaástand. Ég held að við getum þó sagt að í engu tilviki er líklegt að það gerist að við látum bráðabirgðaákvæði renna sitt skeið þannig að menn standi í verri stöðu eftir. Þetta hefur yfirleitt alltaf tengst því að einhver heildarendurskoðun er í gangi á viðkomandi lögum. Í millitíðinni hafa menn komið í veg fyrir að bráðabirgðaákvæði rynnu sitt skeið. Þau réttindi sem bráðabirgðaákvæðin hafa að geyma hafa yfirleitt átt að renna inn í einhverja stærri kerfisbreytingu. Þetta held ég að ég geti fært fram sem almenna skýringu á því af hverju við sitjum uppi með þetta. Það hefur bara tafist, svo að dæmi sé tekið, að ljúka endurskoðun á almannatryggingalögunum hvað varðar lífeyrisréttindi örorkulífeyrisþega. Sú vinna stendur samt yfir.

Þetta með víxlverkunina er kannski líka dæmi um það. Við erum með mörg fleiri slík dæmi. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þetta getur skapað óþægilegt óvissuástand fyrir marga.