151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

útgjöld til heilbrigðismála.

[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér var í raun og veru bara löng buna og röð af rangfærslum. Byrjum á þessu með mönnunarvandann. Hann er ekki tilbúningur ríkisstjórnarinnar og hann er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Mönnunarvandi á Norðurlöndunum er gríðarlegur. Það vantar tugi þúsunda hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum, tugi þúsunda. Og Ísland sker sig ekki úr í hópi Norðurlandaríkja í því að vera að eldast. Umönnunarþörfin er að vaxa og þar af leiðandi er stöðugt þörf fyrir fleiri hjúkrunarfræðinga.

Ef við skoðum undanfarin fimm, sex, átta ár og veltum fyrir okkur launaþróun þeirra stétta sem hv. þingmaður bendir sérstaklega á þá er hún afar jákvæð. Kaupmáttur launa hefur vaxið umfram það sem að meðaltali er að gerast í landinu. Launin hafa einfaldlega stórhækkað. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er mikið álag á þessu fólki. Landspítalinn glímir við vanda sem er ekki eingöngu mönnunarvandi. Það eru fjölmörg önnur flókin viðfangsefni eins og á t.d. við akkúrat í augnablikinu þar sem eitt stærsta vandamál Landspítalans er að geta ekki losnað við fólk sem hefur að nýju heimt heilsu sína vegna þess að við höfum ekki pláss utan sjúkrahússins til að taka við fólki. Þetta er sjálfstætt vandamál sem hefur ekkert með mönnunarvanda sjúkrahússins að gera heldur með flæði innan heilbrigðiskerfisins að gera. Við verðum einfaldlega að gera betur í því að hafa til staðar rými fyrir fólk sem hefur fengið lækningu á sjúkrahúsinu og þarf að komast annað. Þetta veldur okkur vandamálum í baráttunni gegn veirunni. Það að rými og heilbrigðisstarfsfólk á Landspítalanum sé upptekið við að sinna þessu fólki dregur úr afkastagetu spítalans á þeim mikilvægu tímum sem við nú lifum. Og við þurfum á því að halda að (Forseti hringir.) allar hendur séu á dekki þannig að við getum hámarkað getu okkar til að fást við veiruna.

Það eru svona tegundir vandamála (Forseti hringir.) sem við eigum að fást við. En ræðan um að við höfum ekki gert vel við heilbrigðisstéttir er bara röng (Forseti hringir.) og eins líka að þetta sé séríslenskt vandamál.