151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Viðskiptabankar og sparisjóðir gegna lykilhlutverki í hagkerfinu með viðtöku innlána, veitingu útlána og miðlun greiðslna. Ríkið, innstæðueigendur og almenningur allur á mikið undir því að viðskiptabankar og sparisjóðir séu reknir með varfærnum hætti. Hin síðari ár hefur verið til umræðu, bæði hér á landi og erlendis, að reisa skorður við heimild viðskiptabanka og sparisjóða til að starfrækja áhættusama fjárfestingarbankastarfsemi í því skyni að takmarka áhættu ríkja, innstæðueigenda og almennings af slíkri starfsemi. Hefur víða um lönd verið skoðað að grípa til sérstakra ráðstafana í því augnamiði að fyrirbyggja að slík áhætta safnist saman í kerfunum.

Með þessu frumvarpi er lagt til að fjárfestingarbankastarfsemi kerfislega mikilvægra viðskiptabanka og sparisjóða verði takmörkuð en þó með hætti sem geri þeim kleift að veita áfram efnahagslega gagnlega fjárfestingarbankaþjónustu á borð við viðskiptavakt og sölutryggingu. Nánar tiltekið er lagt til að viðskipti kerfislega mikilvægra viðskiptabanka og sparisjóða með fjármálagerninga og hrávörur fyrir eigin reikning megi ekki vera svo umfangsmikil að eiginfjárþörf vegna þeirra, samkvæmt viðmiðum Fjármálaeftirlitsins, verði umfram 15% af eiginfjárgrunni viðkomandi banka eða sparisjóðs. Hámark við 15% ætti ekki að raska núverandi starfsemi þeirra banka sem falla undir frumvarpið en myndi setja hömlur á vöxt áhættusamrar fjárfestingarbankastarfsemi þeirra til framtíðar. Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. hafa verið skilgreindir kerfislega mikilvægir og falla því undir frumvarpið en enginn sparisjóður er sem stendur talinn kerfislega mikilvægur.

Hér væri hægt að rekja sögu málsins aðeins nánar en ég ætla ekki að gera það í neinum smáatriðum. En við vitum, sem höfum fylgst með umræðu um þessi mál, að hún hefst fyrir alvöru við fall fjármálafyrirtækjanna árið 2009. Vegna þeirrar stöðu sem þá kom upp reyndi mjög á innstæðutryggingar og eins og lesa má um í rannsóknarskýrslu Alþingis var ljóst að viðskiptabankar hefðu tekið áhættu langt umfram það sem ásættanlegt var. Sú áhætta endaði með því að þeir höfðu ekki bolmagn til að standa undir skuldum, höfðu ekki laust fé til að standa í skilum og þá þurfti mjög viðamiklar ráðstafanir til að koma innstæðueigendum í skjól sem síðan endaði í alþjóðlegri deilu vegna innstæðna í erlendum bönkum sem voru útibú íslensku bankanna. Upp frá þessu spratt umræða um þörfina á að gera fullan aðskilnað á milli þessarar starfsemi, þ.e. viðskiptabankastarfseminnar og fjármálastarfseminnar, og hafa komið fram hugmyndir hér í þinginu um það. Fyrir nokkrum árum settum við þessi álitamál inn í sérstakan starfshóp sem tók þau til umfjöllunar og kallaði eftir sjónarmiðum. Í framhaldi af því komu fram hugmyndir sem m.a. voru teknar til umfjöllunar í hvítbók sem ríkisstjórnin lét vinna á þessu kjörtímabili og það er á grundvelli allrar þeirrar vinnu, og á grundvelli frumvarps sem lá fyrir hér á fyrra þingi, sem m.a. gekk til umsagnar, sem þetta mál er komið fram.

Hér hafa verið álitamál, t.d. um 15% hámarkið. Þau sjónarmið hafa komið fram í umræðu um þetta mál að málið sé í heild sinni óþarfi í ljósi stöðunnar eins og hún er í dag. Svo tel ég ekki vera. Ég tel að við eigum að nota tíma eins og þann sem er núna, þegar við erum verulega langt frá þessum viðmiðunarmörkum, til að setja reglurnar þannig að allir viti hvar mörkin liggja til langrar framtíðar. En öllum má vera ljóst að ef menn væru að stefna á að fara yfir 15% væri miklu erfiðari umræða að stíga inn í þá stöðu þegar hún er komin upp. Önnur umræða sem heyrst hefur í tengslum við þetta mál er hvort eingöngu eigi að draga hringinn um kerfislega mikilvæga banka eða hvort reglan eigi að vera almenn. Um þetta eru ólík sjónarmið en hérna er línan dregin þar.

Virðulegi forseti. Ég tel að með samþykkt þessa frumvarps yrði hrundið í framkvæmd einni af megintillögum hvítbókarinnar sem lýsir framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr. að lokinni þessari.