Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil gera hér að umtalsefni stöðuna sem komin er upp á landamærum vegna aukins fjölda hælisleitenda sem hingað sækja. Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðastjóri yfir móttöku Úkraínumanna, sagði í viðtali síðastliðinn föstudag, með leyfi forseta, „að það eigi að gera allt til þess að reyna að koma í veg fyrir að hér á Íslandi verði búnar til flóttamannabúðir til að bregðast við húsnæðisvanda meðal umsækjenda um alþjóðlega vernd“. Sennilega tveimur dögum seinna sá ég annað viðtal við Gylfa Þór Þorsteinsson þar sem hann sagði efnislega að kerfið hefði sloppið fyrir horn í þetta skipti og náð að tryggja húsnæði sem dygði í einhverja daga eða vikur, ef ég skildi viðtalið rétt. Þessi staða, sem hefur svo sem verið bent á núna undanfarin ár að væri yfirvofandi vegna þess að þetta gerist svo hratt þegar fjöldinn eykst svona mikið, var fyrirsjáanleg. Nú held ég, virðulegur forseti, að við hér í þinginu verðum að fara að ræða þessi mál út frá staðreyndum frekar en tilfinningu því að ef við ætlum að ræða þessi mál út frá tilfinningum áfram, sem hefur verið meginreglan undanfarin ár, þá verður mjög erfitt að komast á þann stað að taka raunverulega vel á móti þeim sem við ætlum að taka á móti, getum tekið á móti og eiga rétt á að vera hér samkvæmt þeim alþjóðlegum skuldbindingum sem við höfum undirgengist. Ég held að þegar þeir sem næst þessu standa eru farnir að tala með mjög ákveðnum hætti um að næstu skref sé uppsetning flóttamannabúða á Íslandi — og hæstv. dómsmálaráðherra talaði um það í viðtali á Bylgjunni í gær að ein lausn sem kæmi til greina væri svokölluð lokuð úrræði, ef ég man hugtakið rétt, sem er einhvers lags fangelsi þar sem fólk fær ekki að fara út af svæðunum — þá verðum við að reyna að tryggja stöðuna á landamærunum með þeim hætti að við ráðum við hana og getum, eins og ég segi, (Forseti hringir.) tekið forsvaranlega á móti þeim og tryggt aðlögun þeirra sem við ætlum að taka á móti og ráðum við að taka á móti en höfum ekki allt galopið hérna.