148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[14:53]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að ljá máls á þessu mikilvæga málefni hér. Manni þykir oft, þegar rætt er um málefni norðurslóða, og þau tækifæri sem fylgja breytingum í loftslaginu, hinni hnattrænu hlýnun, að það mikilvægasta í þessu gleymist, þ.e. að við þurfum að beita öllum ráðum til að stemma stigu við þessari þróun. Það kann vel að vera að af henni hljótist fjölmörg ný tækifæri, en hið alvarlegasta fyrir ríki á hinum norðlægu slóðum og íbúa þeirra er auðvitað sú breyting sem er að eiga sér stað. Það krefst mun meiri metnaðar af okkar hálfu í umhverfismálum og að við beitum áhrifum okkar í formennsku í Norðurskautsráðinu í þeim efnum, að tryggja að umhverfissjónarmiðin séu þar efst á baugi.

Ég tek undir orð þingmanna þegar talað er um stöðu Akureyrar sem höfuðstaðar hinna norðlægu slóða. Ég held að við ættum að taka höndum saman um að styrkja stöðu Háskólans á Akureyri í rannsóknum þegar kemur að málefnum norðurslóða, byggja frekar undir þá þekkingu og tryggja að raunveruleg miðstöð þekkingar á málefnum norðurslóða sé hýst í háskólanum fyrir norðan. Þar er þegar fyrir mikil þekking og skiptir miklu máli fyrir vaxandi háskólabæ eins og Akureyri að honum sé ætlað veigamikið hlutverk í þessum efnum.

Hver sem tækifærin sem falla okkur í skaut vegna þessarar þróunar kunna að verða ítreka ég enn og aftur — og þakka þá umræðu sem hér hefur verið — að það eru umhverfisáhrifin sem valda þessum breytingum sem við þurfum að hafa mestar áhyggjur af. Við þurfum að tryggja að við leggjum metnað í að gera skyldu okkar til að koma í veg fyrir þau áhrif.