148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[16:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir yfirlitið eða ræðuna. Ég náði því miður ekki að hlusta á hana alla en vona að ég nái samt að spyrja gagnlegra spurninga, en kannski hafa svörin við þessu komið fram.

Á bls. 4 í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Að mati nefndarinnar ber frumvarpið með sér að um málamiðlun sé að ræða. Í nokkrum tilfellum er mörkunin ekki alfarið afnumin en þess í stað tekið fram að fjárveiting skuli að lágmarki nema áætlun fjárlaga um innheimtu viðkomandi gjalds.“

Þá veltir maður fyrir sér: Ef innheimtan er hærri þýðir það þá að viðkomandi stofnun eða viðkomandi fjárlagaliður, eða hvað við köllum þetta, fái þá líka það sem er umfram áætlunina?

Það kemur fram í næsta kafla, sem kallast Niðurstöður nefndarinnar, að kannski hefði verið réttara að bíða með að afgreiða þetta mál. Mig langar svolítið að heyra frá hv. þingmanni hvers vegna það er mikilvægt að taka hluta núna og klára en skilja ákveðna hluti eftir í stað þess að vinna þetta einfaldlega betur og leggja málið fram fullbúið þegar búið er að eyða öllum álitaefnum; í nefndarálitinu er talað um að nauðsynlegt sé að fara vandlega yfir ýmis álitaefni og leiðrétta misræmi o.s.frv.

Ég velti því fyrir mér hvort við séum enn og aftur að stíga skref sem ekki sé endilega til bóta, flæki hlutina kannski eitthvað. Það kemur augljóslega fram í nefndarálitinu að þetta er málamiðlun, að ekki er verið að klára hlutina algjörlega. Ég hef aðeins áhyggjur af því að við hefðum kannski betur setið heima en farið af stað í þetta.