149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

ÖSE-þingið 2018.

527. mál
[14:12]
Horfa

Frsm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég lít svo á að þessari ábendingu sé komið á framfæri. Við í Íslandsdeild ÖSE-þingsins munum kynna okkur þetta mál betur. Ég var að reyna að lýsa því í ræðunni áðan hvernig væri að heyra svo gjörólík sjónarmið, annars vegar frá Úkraínumönnum og hins vegar Rússum. Svar Rússa, þegar Úkraínumenn vekja athygli á þessum aðgerðum Rússa, er yfirleitt á þann veg að við ættum bara öll að koma í heimsókn til Krím og sjá hve friðsælt væri þar og hve vel öllum líði þar. Nú viðurkenni ég að ég hef aldrei heimsótt Krímskaga. Vonandi mun ég einhvern tímann hafa tækifæri til þess. En svör Rússa eru þau að þeir hafi í raun verið að bjarga málum og bæta ákveðið ástand. Ég skil mjög vel að hv. þingmaður hristi hausinn og það er eins sem okkur líður sem sitjum þarna í salnum.

Mér finnst full ástæða til að við ræðum hvort þessi ágæta sveit sem hv. þingmaður vísar í sé að skila einhverjum árangri eða hvort Ísland ætti að vera þátttakandi þar. En svona er staðan í umræðunni á ÖSE-þinginu, fólk hefur allt aðrar hugmyndir um það hvert ástandið raunverulega er. Það er kannski það sem stingur mann hvað mest að fólk tali í gjörólíkar áttir hvað þetta varðar.

Ég verð reyndar að viðurkenna að ég deili áhyggjum hv. þingmanns og kannski sérstaklega af því hvert næsta skref sé. Hvað gerist næst í þessari deilu og hvernig getur alþjóðasamfélagið einhvern veginn komið inn? Þrátt fyrir aðgerðir alþjóðasamfélagsins hefur ekkert breyst. Ég verð að viðurkenna að maður sér ekki alveg í hendi sér hvað gæti mögulega breyst, því miður.