149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

NATO-þingið 2018.

524. mál
[14:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Það sem við sjáum bara á síðasta ári er að gríðarlegar breytingar eru í Norður-Atlantshafinu. Það sem gerist er að Bandaríkjamenn opnuðu flotaherstöðina í Norfolk 23. ágúst síðastliðinn. Það er flotaherstöð sem var lokað árið 2011. En vegna aukins vægis svæðisins og mikilvægis þess hernaðarlega var hún opnuð aftur í ágúst. Við sjáum líka það sem gerðist á Grænlandi með flugvellina núna í september og þá atburðarás sem fór þar af stað og sýnir nokkuð hvar menn standa, eins og með flugvellina þar. Kínverjarnir voru búnir að bjóðast til að setja fjármagn í að stækka flugvellina á Grænlandi. Danski forsætisráðherrann mætti nánast daginn eftir og síðan í framhaldi af því féll heimastjórnin og bréf kom frá Bandaríkjamönnum um að þeir væru til í að skoða fjármögnun flugvallanna, bæði til borgaralegra og hernaðarlegra nota. Við sjáum ótrúlega hraða atburðarás bara núna í haust. Í september var stórt flugmóðurskip suður af landinu. Það hefur ekki sést svona skip í 30 ár á Norður-Atlantshafi. Þessi flotastöð í Norfolk, sem verið er að setja upp og byggja upp á nýjan leik, á að einbeita sér Atlantshafinu með sérstaka áherslu á Norður-Atlantshaf. Þarna eru menn náttúrlega að skoða minnkandi ís á norðurheimskautinu vegna loftslagsbreytinga og hlýnunar og hvaða viðbúnað Rússar hafa verið að setja upp, og síðan að skoða kafbáta Rússa í Barentshafi og eflingu þeirra kafbáta sem eru að koma fram þar. Rússar hafa verið að styrkja þá starfsemi sína mjög á undanförnum örfáum árum.