150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

224. mál
[17:11]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna þessu frumvarpi. Eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom inn á þá hafa ýmsir lagt þessu máli lið í gegnum tíðina en einhverra hluta vegna komst ég ekki á listann þetta árið. Ég vildi árétta að auðvitað er ég ákafur stuðningsmaður þessa frumvarps, en ekki ljúga þingskjölin. Og hér stendur að síðast hafi ég verið á sambærilegu máli árið 2010. Það er kannski ástæða til að, hvað á maður að segja, endurnýja heitin gagnvart þessari stefnu og það er kannski í og með tilgangur þess að ég er kominn í ræðustól Alþingis. Hitt er, sem mér finnst kannski ekki hafa komið nægilega skýrt fram í máli hv. þingmanna hingað til, það sem snýr að því hvað gæti raunverulega gerst ef slys yrðu í íslenskri landhelgi eða á íslensku landi sem sneru að kjarnorkuvopnum eða kjarnorkuúrgangi. Þær „tilraunir“ hafa því miður þegar verið gerðar úti í heimi og hv. þingmenn þekkja skelfileg kjarnorkuslys eins og í Chernobyl og Fukushima sem hafa ekki bara skaðað það umhverfi sem þar er varanlega heldur hafa líka haft hörmulegar afleiðingar fyrir íbúa svæðanna og í för með sér gríðarlegt manntjón, örkuml og veikindi til frambúðar. Ég bið hv. þingmenn að átta sig á því að í þessum tilfellum var um að ræða svokallaða friðsamlega notkun kjarnorku. Þarna erum við ekki að tala um ferðir vígtóla eða vígvéla um svæði eða neitt þess háttar, heldur var þarna um friðsamlega notkun þessarar orkutegundar að ræða.

Við erum á Íslandi, eins og hv. flutningsmaður kom inn á, algerlega háð því að nýta auðlindir okkar, fólk ýmist neytir þeirra eða nýtur sem einstaklingar úti í náttúrunni, borðar fisk eða kjöt eða grænmeti eða hvað það er. Þeir þingmenn sem sáu þá frábæru þætti Chernobyl, sem hafa verið sýndir í sjónvarpi, átta sig á því hvers lags skelfilegar afleiðingar það hefur fyrir landsvæði þegar ekki er hægt að nota þau árum og áratug saman og jafnvel árhundruðum saman til að framleiða matvæli. Það gæti haft skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir Íslendinga. Þess vegna er mjög mikilvægt að við sem þingmenn og þingheimur sameinumst um að klára þetta mál í eitt skipti fyrir öll, ég tala nú ekki um í ljósi þess sem þegar hefur verið gert í þjóðaröryggisstefnunni eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom inn á áðan.