135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:51]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það kann að þurfa frekari skýringar á hinum einkennilegu hugmyndum um uppkaup á framleiðslustuðningi við bændur í mjólkurframleiðslu. Ég átta mig alveg á því á hvaða forsendum þær eru reistar.

Atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar afstýrði því að menn lentu í sömu ógöngum og þeir hafa lent í með sjávarútveginn og fiskveiðistjórnarkerfið. Framleiðslukvótakerfið í landbúnaði hefði verið jafnmikið mannréttindabrot eins og það er í sjávarútvegi ef það hefði komist á, sem vissulega var reynt. En skynsamir menn sáu að ekki var hægt að taka fyrir rétt manna til að hefja framleiðslu á mjólk án nokkurra framleiðsluréttinda frá ríkinu. Greinin er opin og er hverjum sem er heimilt að framleiða svo mikið sem hann kýs.

Ríkið hefur gert samning við bændur sem tryggir þeim ákveðinn stuðning í ákveðinn árafjölda. Sá samningur liggur fyrir og honum hefur ekki verið breytt. Ég sé heldur ekki að bændur hafi orðið fyrir neinu tjóni. Ef ríkið á að fara af stað og kaupa upp þessi réttindi, sem eru ekkert annað en eigin peningar, þá hlýt ég að spyrja: Hvað er verið að kaupa? Hvaða tjón er verið að bæta? Ég sé það ekki virðulegi forseti.

Hins vegar er rétt að taka undir þau sjónarmið að áfram þarf að vera stuðningur við mjólkurframleiðslu. Það má hins vegar og verður trúlega að breyta fyrirkomulagi á þeim stuðningi, m.a. í ljósi atvinnufrelsisákvæðisins. En stuðningurinn er vissulega þarfur. Við getum ekki skorið okkur frá öðrum vestrænum þjóðum hvað það varðar.