139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[17:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágæta ræðu. Ég tek eindregið undir með honum að markmiðin eru góð, þau markmið að gæta beinharðra hagsmuna Íslands og reyna að láta Ísland hafa áhrif á umhverfi sitt og eins að gæta að loftslagsmálum. Ég tek undir það.

Hann sagði líka að stefnan breyttist þegar aðstæður breytast o.s.frv. En hann kom ekki inn á það og í tillögunni get ég ekki séð hvað gerist þegar Ísland gengur í Evrópusambandið.

Nú er það svo að hæstv. utanríkisráðherra ásamt með hæstv. forsætisráðherra hefur skrifað undir skilyrðislausa aðildarbeiðni að Evrópusambandinu með fulltingi þingmanna Vinstri grænna. Ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra sem hefur farið víða um lönd í Evrópu undanfarið og spjallað við kollega sína hvort komið hafi til tals að svona þingsályktunartillaga yrði flutt vegna þess að Ísland er í reynd að semja fyrir Evrópusambandið ef við göngum í það. Þá erum við orðinn útvörður Evrópusambandsins gagnvart norðurskautinu.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra beinna spurninga: Hefur verið rætt á þeim fundum sem hann hefur setið með kollegum sínum í Evrópusambandinu um þátttöku eða aðild Íslands að þessu norðurslóðasamstarfi? Vita þeir af þeirri stefnu sem hér er verið að móta?

Þegar lönd ganga í Evrópusambandið er mótuð sameiginleg utanríkisstefna, einstök lönd hafa ekkert lengur um hana að segja. Ísland mun ekkert hafa um þetta mál að segja eftir að við erum komin í Evrópusambandið. Maður spyr sig ef eitthvað er á bak við þessa aðildarbeiðni til Evrópusambandsins, sem Vinstri grænir standa heils hugar á bak við, hlýtur maður þá ekki að taka mið af því hvað gerist þegar við erum gengin inn?