144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[15:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að vekja máls á þessari mikilvægu umræðu. Misskipting í íslensku samfélagi hefur verið að aukast á síðustu árum, kostnaðarþátttaka sjúklinga hefur einnig verið að aukast og tekjulágir hópar, við getum nefnt öryrkja, og tekjulágt fólk almennt er þegar farið að fresta læknisheimsóknum. Þess vegna eru allar breytingar á heilbrigðiskerfinu í þá átt að auka eða hreinlega að draga ekki úr kostnaðarþátttöku sjúklinga skref í ranga átt.

Hv. ráðherra segir: Rekstrarformið er algjört aukaatriði í mínum huga. Ég vil segja að það er stór munur á því hvort um sjálfseignarstofnun sem er rekin á félagslegum grunni er að ræða eða hvort markmiðið með stofnuninni er að ná út arði, þ.e. að reka stofnunina með gróðasjónarmiðum. Þess vegna vekur 7. liður í yfirlýsingu Læknafélags Íslands og ýmissa ráðherra mér dálítinn ugg, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Opna þarf möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum …“

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Kemur til greina af hans hálfu að opna fyrir rekstrarform sem eru rekin með gróðasjónarmið í huga?

Svo segir líka í yfirlýsingunni „… samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi.“ Telur ráðherra eðlilegt að ríkið greiði það sama til stofnana sem reknar eru á félagslegum grunni og til þeirra sem reknar kynnu að vera með gróðasjónarmið í huga? Á ríkið að borga það sama til (Forseti hringir.) ólíkra stofnana?