148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[16:08]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er afar mikilvægt að þetta komi fram. Ég vil líka að það komi hér fram að sá sem hér stendur er í grundvallaratriðum sammála þessari stefnumörkun, þ.e. að markaðar tekjur eigi kannski ekki að vera hryggjarstykkið í stefnumörkun ríkisins í fjármálum.

Varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra sérstaklega þá er mikilvægt að hv. þingmenn átti sig á því að þar er ekki eingöngu um að ræða verkefni sem snúa að byggingu nýrra hjúkrunarheimila eða hjúkrunarrýma. Framkvæmdarsjóðurinn leggur einnig fé til ýmiss konar endurbótaverkefna, til uppbyggingar á dagdvölum og reyndar í seinni tíð, þó að það sé kannski tímabundið verkefni, líka til rekstrar nokkurra rýma.

Ég held að því sé afar mikilvægt að það liggi fyrir, a.m.k. eitthvað fram í tímann, að sjóðurinn geti örugglega staðið við þær skuldbindingar geti örugglega staðið við þær skuldbindingar sínar. Þegar eru nokkur verkefni í gangi sem sjóðurinn hefur þegar hafið fjármögnun á og einhverjir samningar sem liggja til grundvallar þeim. Því er mikilvægt að það sé, eins og kemur fram í ágætri breytingartillögu nefndarinnar, bundið í lög að þessar fjárveitingar muni halda áfram að koma til sjóðsins.