150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Maní Shahidi segist í fyrsta sinn á ævinni upplifa sig öruggan og frjálsan. Hann kom út úr skápnum sem trans drengur hér á landi, nokkuð sem hann hafði ekki þorað að gera áður. Af hverju gerist það hér? Af því að hér upplifði hann nægilegt öryggi til að vera hann sjálfur, ólíkt því sem hafði gerst í fyrrum heimalandi hans, Íran, fyrir utan þær pólitísku ofsóknir sem fjölskyldan varð fyrir þar. Maní er að sækja hér um hæli ásamt foreldrum sínum. Samkvæmt fréttum hefur hann ekki fengið að tjá sig um stöðu sína við þau yfirvöld sem taka ákvörðun um framtíð hans hér á landi. Í barnasáttmálanum kemur fram að börn eigi að fá að tjá sig þegar kemur að ákvörðunum sem varða líf þeirra. Allir frá 12 ára aldri eiga rétt á því að tjá sig samkvæmt sáttmálanum. Í lögum um útlendinga segir, með leyfi forseta:

„Barni sem myndað getur eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og skal tekið tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska.“

Hinn 17 ára gamli Maní hefur ekki fengið svo mikið sem eina spurningu frá íslenskum yfirvöldum ef marka má fréttir.

Herra forseti. Þessi drengur er kominn inn á BUGL vegna alvarlegrar andlegrar vanheilsu og leggjast læknast gegn því að hann verði sendur úr landi. Því má bæta við að sá veruleiki sem trans börn og trans fólk, hinsegin fólk almennt, býr við í Íran ætti að hafa áhrif á afstöðu okkar til þessa máls einfaldlega út frá mannúðarsjónarmiðum.

Það liggur fyrir beiðni um endurupptöku málsins. Svo virðist sem stjórnvöld ætli þó ekki að fresta framkvæmd fyrri ákvörðunar heldur vilji vísa fjölskyldunni aftur til Portúgals áður en endurupptökubeiðnin hefur verið tekin fyrir. Lögfræðingur fjölskyldunnar segir að þegar litið sé til fordæma, sérstaklega hvað varðar barnafjölskyldur, ætti það að leiða til þess að brottvísun verði frestað þar til niðurstaða liggur fyrir. Stjórnvöld séu bundin af barnasáttmálanum og jafnrétti eigi að gilda gagnvart öllum börnum innan lögsögu okkar. Þetta snýst um jafnræði. Hvernig stendur á þessari afgreiðslu íslenskra stjórnvalda í máli hins 17 ára gamla Manís? Hvert er planið?