150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Með leyfi forseta:

„Ég kom til Íslands og þar fékk ég fyrst að vera ég sjálfur. Ég fékk að vera frjáls og ég er stoltur af því að búa á Íslandi, þakklátur fyrir að fá að búa með þessu frábæra fólki á þessu frábæra landi.“

Enginn sagði þetta, virðulegi forseti, svo að ég viti til. Þetta er það sem ég myndi óska að 17 ára drengur frá Íran myndi segja í framtíðinni, að þetta væri sannleikurinn. Því miður er svo ekki. Maní, eins og við vitum, verður að öllum líkindum sendur úr landi, ég veit ekki hvað ætti að bjarga honum úr þessu vegna þess að ég veit hvernig kerfið okkar virkar. Þetta er ekki fyrsta og því miður ekki síðasta málið sem við sjáum svona.

Þegar þessi mál koma upp í fjölmiðlum þá eigum við að hugsa með okkur að það er fólk í kringum einstaklinginn — jafnvel þó að við gefum okkur að Maní komi okkur ekkert við, eitthvað sem við ættum ekki að hugsa að mínu mati en gefum okkur það samt að gamni okkar, bara svona upp á fjörið — að það er fólk í kringum Maní sem vill ekki missa hann úr landi, sem vill hafa hann hér, sem þykir vænt um hann. En það þarf að senda hann úr landi. Af hverju, virðulegi forseti? Jú, af því að lögin segja hitt og þetta. En af hverju, virðulegi forseti? Nú, vegna þess að Dyflinnarreglugerðin bla, bla. Já, en, virðulegi forseti, af hverju? Af hverju má hann ekki vera hérna?

Það er vegna þess að við erum búin að búa til bákn, sem stundum er kallað eftir að verði minnkað eða dregið úr, til að halda fólki úr landi, bákn til þess að skerða og hindra frelsi fólks sem við hefðum gagn og gaman af og það hefði gagn og gaman af að vera hér með okkur. Ef við förum aðeins að hugsa um útlendingamál þannig að útlendingar séu í alvörunni fólk sem jafnvel Íslendingum gæti þótt vænt um þá myndum við kannski hugsa kerfið öðruvísi. En það að fela okkur endalaust á bak við lagatæknina hylur spurninguna sem við ættum að spyrja okkur þegar við hugsum um þessi mál: Af hverju þarf þetta að vera svona? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)