150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

241. mál
[17:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur framsögu hér þar sem við ræðum tillögu til þingsályktunar um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu. Ég fagna því sérstaklega að í þessari tillögu er rætt um að reyna að nýta kosti fríverslunarsamnings EFTA við Palestínu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að sá samningur kæmist í raun og veru í þá framkvæmd sem í upphafi var ætlast til og það mun styrkja stöðu Palestínu og efnahagslífs þar sem er bráðnauðsynlegt.

Fyrst langar mig að koma inn á landtökubyggðirnar sem hafa verið nefndar hér. Að sjálfsögðu er það þannig og við erum þeirrar skoðunar að Ísrael beri að fylgja Genfarsáttmálanum þar sem eru fjórir alþjóðasamningar og innan þeirra kemur fram að hernemi ríki annað ríki megi það ekki flytja fólk sinnar eigin þjóðar eða ríkis yfir á hin hernumdu svæði til þess að búa þar. Fjöldi landtökubyggða á Vesturbakkanum er núna, held ég, um 132 og fjöldi Ísraela sem býr í landtökubyggðum er um 14% af heildaríbúafjölda landsins og er kominn í u.þ.b. 427.000. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni brýtur þetta í bága við alþjóðalög og hefur einnig haft mjög slæm áhrif á þær friðarviðræður og friðarferli sem margsinnis hefur verið reynt að koma áfram en gengið mjög brösuglega. Það er mjög nauðsynlegt að við sem þjóð í okkar samtali við stjórnvöld í Ísrael hvikum ekki frá því að þessar landtökubyggðir séu í bága við alþjóðalög.

Í nóvember 2015 samþykkti Evrópusambandið að merkja sérstaklega vörur frá landtökubyggðum. Evrópusambandið og Ísrael hafa gert með sér sérstakan viðskiptasamning sem er ígildi fríverslunarsamnings þar sem vörur frá Ísrael njóta sérstakra kjara. Það er þó tekið skýrt fram að vörur framleiddar í landtökubyggðum falli ekki undir þennan samning. Árið 2009 birtu bresk stjórnvöld leiðbeiningar um það hvernig aðgreina megi vörur sem eru framleiddar í landtökubyggðum á Vesturbakkanum frá vörum sem framleiddar eru af Palestínumönnum á Vesturbakkanum. Danmörk tók upp svipaðar reglur árið 2013 og Belgía 2014. Leiðbeiningarnar eru einkum á þann veg að ekki sé hægt að merkja vörur sem eru framleiddar í landtökubyggðum sem vörur framleiddar í Ísrael. Merkja beri vörur framleiddar á Vesturbakkanum sem vörur framleiddar á Vesturbakkanum en í sviga standi landtökubyggð. Það er síðan á ábyrgð ríkjanna sjálfra innan Evrópusambandsins hversu vel þessu er framfylgt. Það er því heimilt að selja vörur frá landtökubyggðum í ríkjum Evrópusambandsins en þær þurfa að vera merktar.

Evrópusambandið hefur gefið út að það sé innan við 1% af vöruútflutningi Ísraels til Evrópusambandsins sem komi frá landtökubyggðum og telst það nokkuð lágt hlutfall. Evrópusambandið styður hins vegar ekki að sniðganga vörur frá Ísrael né að beita landið viðskiptaþvingunum. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að fylgja því og ég er á móti því að sniðganga vörur frá Ísrael og ég mun koma nánar að því hér á eftir. Frá efnahagslegu sjónarmiði, þ.e. af hálfu Ísraels, hefur verið bent á að áhrif þessa séu fremur lítil. Þeir sem vilja sniðganga vörur frá Ísrael gera það örugglega nú þegar. Að sama skapi muni þeir sem vilja sérstaklega styðja Ísrael ekki leita sérstaklega eftir því að kaupa vörur frá landtökubyggðum. Þær vörur sem einkum er um að ræða í þessu sambandi eru vínber, döðlur, rauðvín, hvítvín, hunang, ólívuolía og snyrtivörur. Á Vesturbakkanum eru tæplega 30 vínekrur í landtökubyggðum en í landinu eru þær alls um 150. Þekktasta vínekrusvæðið í Ísrael er í Gólanhæðunum. Það er landsvæði sem ekki er viðurkennt af alþjóðasamfélaginu.

Í október 2018 féllu frönsk stjórnvöld frá kröfunni um að merkja sérstaklega vörur frá landtökubyggðum vegna málsóknar sem hugveita nokkur, hliðholl stjórnvöldum í Ísrael, höfðaði gegn frönskum stjórnvöldum.

En víkjum aðeins að stöðu efnahagsmála í Palestínu. Samkvæmt nýjustu tölum frá Alþjóðabankanum hefur fátækt og atvinnuleysi í Palestínu haldið áfram að aukast. Á Vesturbakkanum var atvinnuleysið í fyrra um 15% að meðaltali og hafði þá lækkað um 2% frá árinu 2018. En það er hins vegar mjög misjafnt hversu hátt atvinnuleysið er innan Palestínu. Í Betlehem er það 23%, í Jenin er það um 22% en í Jerúsalem er það hins vegar 7% sem telst lágt á þessu svæði. Á Gasa er hins vegar atvinnuleysið 47% og fer hækkandi, þar af 70% meðal ungs fólks og 29% íbúa í Palestínu búa við fátækt. Á Gasa er þessi tala 80%. Menntun er Palestínumönnum hins vegar mjög mikilvæg og er litið á hana sem svar við hernáminu. Það er hins vegar þannig að rúmlega 40% þeirra sem útskrifast úr háskóla í Palestínu fá enga vinnu. Palestínumenn búa því margir hverjir við vonleysi þegar horft er til framtíðar. Á síðasta ári var gerð viðamikil skoðanakönnun meðal Palestínumanna á vegum rannsóknarsetursins AMAN þar í landi um það hvaða þjóðfélagsverkefni þátttakendur töldu vera brýnust og niðurstaðan var sú að brýnasta verkefnið væri efnahagsmálin.

Þá ætla ég að víkja aðeins að því sem ég nefndi í upphafi, hvers vegna ég er á móti því að sniðganga vörur frá Ísrael. Það eru rúmlega 23.000 Palestínumenn sem starfa í landtökubyggðum á Vesturbakkanum og hefur fjölgað um 1.000 frá árinu 2018, margir þeirra í byggingarframkvæmdum og verksmiðjum en einnig á vínekrum. Alls starfa um 133.000 Palestínumenn í Ísrael og landtökubyggðum. Launin eru allt að þrisvar sinnum hærri en það sem býðst í Palestínu ef á annað borð er hægt að fá vinnu. Sem dæmi um áhrif þess að sniðganga vörur frá Ísrael, hvernig það getur bitnað á Palestínumönnum, má nefna að árið 2015 lokaði ísraelsk Sodastream verksmiðja í Palestínu, í landtökubyggð. Hún flutti starfsemina í burtu vegna áhrifa frá svokallaðri BDS-hreyfingu sem sniðgengur vörur frá Palestínu. 600 Palestínumenn misstu þarna atvinnuna á einu bretti og hafði gífurleg áhrif fyrir þær fjölskyldur að sjálfsögðu. Palestínumenn sjálfir hafa gagnrýnt þessa hreyfingu og m.a. gerði forseti landsins, Abbas, það í ræðu árið 2013.

Ég vil hins vegar koma því á framfæri hér í minni ræðu að ég tel mikil tækifæri fyrir okkur Íslendinga að taka upp þetta samtal við Ísraelsmenn. Við þekkjum að stjórnmálasamband okkar við Palestínu og Ísrael er gott. Árið 2011 var Ísland fyrsta vestræna ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði Palestínu og Ísland gegndi einnig mikilvægu hlutverki í stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Samskipti ríkjanna voru lengi vel mikil en hafa minnkað verulega á liðnum árum, einkum vegna hernámsins sem við fordæmum. Ég fullyrði þó hér að Ísraelsmenn bera virðingu fyrir Íslandi og líta á okkur sem vinaþjóð.

Ég tel að við eigum að fara mjög varlega í að ræða það sérstaklega að sniðganga vörur frá Ísrael vegna þess að það hefur því miður slæm áhrif fyrir fjöldamarga Palestínumenn. Það er bara staðan og við verðum að horfa til þess. Það er hins vegar mjög mikilvægt að við tökum upp samtalið við Ísrael, ekki síst um landtökubyggðirnar, í ljósi þess að ríkið ber traust til okkar og það er einn grundvallarþátturinn í þessu friðarferli fyrir botni Miðjarðarhafs milli Palestínu og Ísraelsmanna að njóta trausts. Það er nú bara þannig að Evrópusambandið nýtur ekki trausts meðal Ísraelsmanna og hefur því ekki orðið ágengt í friðarumleitunum. Sama má segja um Bandaríkjamenn. Þeir njóta ekki trausts meðal Palestínumanna og þess vegna hefur þeim ekki orðið ágengt í þessum efnum. Þarna tel ég að við Íslendingar höfum ákveðin vannýtt tækifæri sem við ættum að skoða og ég held að það sé mikilvægt innlegg okkar í það dapurlega mál sem deilan milli Ísraelsmanna og Palestínumanna er.