151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

starfshópur um útgáfu öruggra opinberra skilríkja.

260. mál
[17:45]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég biðst forláts ef ég er ekki alveg nógu skýr. Ég verð að játa að ég fylgdi ekki alveg öllu því sem hv. þingmaður kom inn á og er líklegra en ekki að þar sé við mig að sakast. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að tillagan gengur út á að skipa starfshóp. Verkefni starfshópsins er að gera tillögur að útgáfu öruggra opinberra skilríkja og áætlun um kostnað við að taka skilríkin í notkun. Tillagan gengur ekki út á neitt annað. Allar þær mjög góðu spurningar sem hv. þingmaður kom inn á, ásamt ótal fleiri án efa, eru væntanlega það sem starfshópurinn ætti að setjast yfir og svara. Í greinargerðinni er bent á ýmis fordæmi og þróun í einhverja átt án þess að hvert og eitt þeirra atriða sé sérstök röksemdafærsla fyrir akkúrat þessu. Fyrir mér eru rafræn skilríki tvenns konar, annars vegar það að geta opnað símann og sýnt ökuskírteini sitt, eða hvað það er, og hins vegar auðkennislykill sem við höfum æ oftar þurft að reiða okkur á. Ég þekki fullt af fólki sem er ekki með rafræn skilríki heldur aðeins Íslykilinn og hann virkar ekki nema í mjög takmörkuðu tilliti.

Ég spyr því hv. þingmann sem, ef ég skil hana rétt, hefur efasemdir varðandi sjálfa sig og það að hafa skilríki í símanum sínum: Er hún ekki sátt við að við höfum val um það, að þau sem vilji hafa skilríkin sín í símanum geri það? Og telur hún ekki einmitt mjög skynsamlegt að það sé hið opinbera sem komi að útgáfu auðkennislykla en ekki einkafyrirtæki?