154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

mat á menntun innflytjenda og atvinnuþátttaka þeirra.

[14:16]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að benda á eitt af þeim lykilviðfangsefnum sem við höfum skilgreint fyrir stefnumótunarvinnuna í grænbók í málefnum innflytjenda sem tekin var saman á síðasta ári og kom í samráðsgátt stjórnvalda á því ári. Þar er lykilviðfangsefni nr. 4 að einfalda og efla mat á fyrra námi og starfsreynslu þeirra sem hafa menntun frá erlendum skólum. Þar er meiningin að koma einmitt á gátt, eins og hér var nefnt áðan, og efla raunfærnimat og tryggja stuttan og skilvirkan matstíma á þessu erlenda námi og starfsréttindum. Ég tel að þetta sé einn liðurinn í því að auka stuðning við inngildingu innflytjenda hérlendis sem ég tel gríðarlega mikilvægt, ekki síst vegna þess að við erum að sjá aukna stéttaskiptingu og við verðum að vinna gegn þeim ójöfnuði sem er nú þegar til staðar og er að myndast á milli innflytjenda og þeirra sem hér eru fædd. (Forseti hringir.) Þessu þurfum við að vinna að og mikilvægt skref í þeim málum er að koma þessari fyrstu stefnumótun í málefnum innflytjenda á koppinn.