132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Lög um fæðingarorlof – undirbúningur að fjölmiðlafrumvarpi.

[12:02]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna fréttaflutnings undanfarið um að makar íslenskra námsmanna erlendis eiga ekki lengur rétt á fæðingarstyrk en íslenskir námsmenn og makar þeirra í Danmörku eru í vandræðum vegna þessa máls. Þetta kemur í kjölfar þess að lögum um fæðingarorlof var breytt á þinginu árið 2004 og gekk breytingin í gildi um áramótin 2005, eða fyrir rúmu ári. Það gerði það að verkum að sett var inn skýlaus skylda að sá sem fengi þessa greiðslu yrði að vera með lögheimili á Íslandi. Áður var sagt í lögunum að það væri að jafnaði sem menn þyrftu að eiga lögheimili á Íslandi til að geta fengið fæðingarorlofsstyrk.

Í Norðurlandaráði er mikil vinna í gangi við að tryggja að þeir sem flytjast á milli landanna missi ekki réttindi og að ekki séu hindranir á milli landa, fólk geti flust án þess að missa réttindi og hefur Paul Schlüter stýrt þeirri vinnu. Í framhaldi af henni hafa komið skilaboð til ríkjanna um að passa upp á að tryggja réttindi fólks sem flyst á milli.

Ég vil spyrja hæstv. félagsmálaráðherra út í lagabreytingarnar árið 2004, hvort tilgangurinn með lagabreytingunum hafi verið að taka þennan rétt af námsmönnum eða mökum þeirra erlendis. Gerði ráðherra sér grein fyrir að það var inni í þeim lagabreytingum að þetta fólk mundi líða fyrir það? Eða mun hann á einhvern hátt taka þetta mál upp þannig að fólk eigi þennan rétt í þeim löndum sem það dvelur í og hefur lögheimili í? Því að auðvitað er reglan sú að fólk á að fá slíkar bætur í því landi sem það hefur lögheimili í, þ.e. á Norðurlöndunum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hann bregðast við? Það gengur auðvitað ekki að ungir íslenskir námsmenn sem eru að stofna sína fyrstu fjölskyldu og eiga börn fái ekki neinn styrk í fæðingarorlofi.