132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Umhverfisvænar kröfur til fiskiskipaflotans.

451. mál
[13:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra um orkusparandi og umhverfisvænar kröfur til fiskiskipaflotans.

Fimm eða sex togarar menga eins mikið og heilt álver. Þessu hefur verið haldið fram. Mesta koltvísýringsmengun okkar er vegna fiskiskipaflotans. Olíuverð fer stöðugt hækkandi og kröfur um umhverfisvernd aukast sífellt. Þrýstingur er á að nota minni olíu. Við Íslendingar þurfum að leita nýrra leiða til að gera flotann samkeppnishæfari og vega upp á móti miklum rekstrarkostnaði.

Hér á landi starfar nýsköpunarfyrirtækið Marorka sem hefur hannað búnað sem getur náð niður árlegri olíunotkun fiskiskipa um 10–15%. Það hefur sem sagt hannað vistvænan orkusparandi búnað sem hægt er að koma fyrir í skipum. Kostnaður við að koma á þessum búnaði greiðist niður á einu til tveimur árum. Búið er að koma þessum búnaði fyrir í hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni og samkvæmt svari dómsmálaráðherra til mín síðastliðinn miðvikudag um hvort til stæði að setja slíkan búnað í nýtt landhelgisgæsluskip þá svaraði hann því játandi þannig að þessum búnaði verður komið fyrir í því skipi.

Það er mjög mikilvægt að við sýnum frumkvæði og styðjum við fyrirtæki eins og þetta sem hefur hannað þennan búnað. Ég hef bent á það einnig að erlendar þjóðir hafa sýnt þessu fyrirtæki mikinn áhuga og hyggjast koma þessum búnaði fyrir í ferjum, landhelgisgæsluskipum og fiskiskipum sínum, t.d. Kanada og Frakkland og fleiri þjóðir eru að huga að þessum málum.

Þess vegna spyr ég hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að umhverfisvænum og orkusparandi búnaði verði komið fyrir í íslenskum fiskiskipum, sambærilegum þeim sem er í hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni.