141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

rannsóknarnefndir.

416. mál
[00:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti á þskj. 850 og breytingartillögu á þskj. 843, en málinu var vísað til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á milli umræðna.

Meiri hlutinn tekur fram, eins og kemur fram á nefndaráliti, að með þeim breytingum sem þegar hafa verið samþykktar við 2. umr. er búið að þrengja ákvæðið um skaðleysi þannig að nú nær það eingöngu til nefndarmanna sem bera ábyrgð á nefndarstarfinu en ekki til annarra starfsmanna. Þá er ákvæðið eftir breytingarnar einnig takmarkað við þær skýrslur sem nefndin skilar og nær því ekki til þess sem nefndarmenn segja eða skrifa á öðrum vettvangi.

Fyrir nefndinni kom fram að ákvæðið sem varðar ærumeiðingar, sem einkum var rýnt í, er að því leytinu skýrt að kröfum út af ómerkingu ummæla samkvæmt almennum hegningarlögum verður aðeins beint að einstaklingum en af 3. málsl. 3. gr. frumvarpsins leiðir að ábyrgð íslenska ríkisins tekur einvörðungu til bótaábyrgðar. Kröfu um ómerkingu ummæla í skýrslu rannsóknarnefndar verður því hvorki beint að nefndarmönnum né íslenska ríkinu. Meiri hlutinn tekur hins vegar fram að einstaklingur sem telur sig hafa borið fjárhagslegan skaða af ærumeiðandi ummælum í skýrslu rannsóknarnefndar getur sótt mál á hendur íslenska ríkinu og krafist fébóta.

Frú forseti. Undir þetta nefndarálit skrifa auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir, Róbert Marshall, Lúðvík Geirsson, Oddný G. Harðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, með fyrirvara, og Margrét Tryggvadóttir.

Breytingartillagan á þskj. 843 er nánast tæknileg eftir þær breytingar sem gerðar voru hér eftir 2. umr. og er til samræmis við það.