148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:40]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Við þurfum einhvern veginn að komast upp úr þessum skotgrafahernaði, þessum „við og þið“ hjólförum. Auðvitað binda menn vonir við að það gerist þegar Vinstri græn fara í ríkisstjórn vegna þess að þau hafa verið mjög öflug við að benda á nauðsyn þess að innleiða ný vinnubrögð. Þess vegna vil ég biðla til kollega okkar í Vinstri grænum, það er nú einungis korter síðan þau voru í stjórnarandstöðu. Þið vitið nákvæmlega hvað við erum að tala um. Ég vil sérstaklega benda á að forseti Alþingis, sem er búinn að vera þingmaður síðan ég var sex ára, er búinn að tala stanslaust í 35 ár um að lyfta upp Alþingi, gefa þingmannamálum meira vægi. Nú er hann í einstakri aðstöðu til að gera það, að lyfta upp löggjafarstarfi þingheims. Þingheimur er einmitt þingheimur. Þetta á ekki að vera einhver stimpilstofnun ráðherranna.

Þess vegna biðla ég enn og aftur til Vinstri grænna. Nú eruð þið við stjórnvölinn. Breytið þessu. Þetta er einstakt tækifæri og útlátalítið fyrir ykkur að ná fram þeim breytingum sem þið sjálf hafið kallað eftir, (Forseti hringir.) meira að segja löngu áður en hreyfing ykkar var stofnuð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)