140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

329. mál
[14:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Tækifæri íslenskrar matvælaframleiðslu munu vaxa mjög hratt að mínu mati á næstu árum. Heimsmyndin er að breytast hvað matvælaframleiðslu snertir, matvælaframleiðslan mun færast norðar og það mun draga úr henni á syðri hluta hnattarins. Bill Gates hjá Microsoft sagði, þegar hann var spurður að því í viðtali fyrir einu eða tveimur árum síðan hvað hann mundi gera ef hann væri ungur maður í dag og ætti að velja sér starfsumhverfi og hvert hann mundi stefna: Ég mundi horfa til matvælaframleiðslu og alls sem tengist fæðuöflun því að það verður stóriðja 21. aldarinnar.

Við Íslendingar eigum að marka okkur stefnu hvað varðar landbúnaðarafurðir. Nú erum við byrjuð að flytja út skyr til Bandaríkjanna, það er gríðarleg aukning í því. Lambakjötið er að hasla sér völl á fínustu veitingahúsum í Rússlandi. Við eigum að marka okkur stefnu og sýn á það að framleiða vörur út á sérstöðu, út á hreinleika, því að það getum við gert. Við verðum aldrei risar. Kínverjar gætu komið hingað á morgun og keypt allan fiskinn af okkur fyrir hádegi, sagði kínverskur kaupsýslumaður einhvern tíma. Við þurfum ekki annað en að komast inn á fínustu veitingahúsin því að við erum svo agnarsmá.

Nýtt kúakyn? spyr hv. þingmaður. Það sem ég var að koma inn á er sérstaðan, sérstaða íslensks landbúnaðar er einmitt fólgin í íslensku búfjárstofnunum. Afurðageta íslenska kúastofnsins hefur verið að aukast á síðustu árum miðað við hverja kú. Við eigum að halda okkar sérstöðu hvað snertir íslensku kýrnar, íslenska sauðfjárkynið, íslenska hestinn (Forseti hringir.) og íslensku hænuna o.fl. og markaðssetja okkar vörur út frá hreinleika því að þar getum við náð árangri vegna þess að við (Forseti hringir.) verðum alltaf í hæstu verðunum og þá þurfum við að hafa sérstöðu. Íslenska kýrin hefur svo sannarlega (Forseti hringir.) ríka og góða sérstöðu.