Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[21:04]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina, það er bara skemmtilegt að vera farinn að ræða þetta aftur við hv. þingmann í þingsal. (Gripið fram í.) Ég er búinn að sakna þess. Ég er reyndar alveg að meina það.

Ég get ekki fullkomlega svarað spurningu hv. þingmanns en í greinargerðinni er fjallað um að með innleiðingu reglugerðarinnar sem hér um ræðir sé verið að koma í veg fyrir og stöðva matvælasvindl og tryggja að neytendur geti betur treyst því að lífrænar vörur í verslunum séu sannarlega framleiddar með lífrænum aðferðum, með áherslu á verndun vistkerfa, dýravelferð, umhverfis- og loftslagsmál. Ég verð að viðurkenna fyrir hv. þingmanni að ég þekki ekki hversu ítarleg reglugerðin er. Hér eru samt sem áður nefnd lykilatriði í því sem hv. þingmaður veltir hér upp. Verndun vistkerfa er kannski stærsta atriðið þar en auðvitað er líka um að ræða loftslagsmál. Almennt séð get ég sagt að ég tel að við eigum að beita öllum þeim hvötum sem við mögulega getum til að draga úr ósjálfbærri beit. Á síðasta kjörtímabili var í gangi mjög umfangsmikil vinna í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem þá hét við gerð reglugerðar um sjálfbæra nýtingu lands og þar var tekið á þessum málum. Þetta hefur síðan flust yfir í matvælaráðuneytið og ég veit að verið er að vinna úr þeim athugasemdum sem fram höfðu komið í samráði. Það er líka verið að vinna í landsáætlun um landgræðslu og skógrækt sem þessu tengist. En almennt séð er ég þeirrar skoðunar að við eigum að beita hvötum til að reyna að draga úr ósjálfbærri beit hvar sem hún er og ef hér er um einn slíkan hvata að ræða þá tel ég að það sé æskilegt líka.