135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:46]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum kannski komnir dálítið út fyrir það frumvarp sem hér liggur fyrir og erum dottin inn í víðari umræðu. Ég vil þó aðeins nefna við þetta síðara svar mitt að í ljósi orða hv. þingmanns Kristins H. Gunnarssonar um að þjónustustigið sé misjafnt eftir landsvæðum þá er það alveg hárrétt en það er ekki alltaf betra hér á þessu svæði höfuðborgarinnar heldur en gerist einhvers staðar annars staðar á landinu. Ég ætla bara að nefna dæmi um almenna heilsugæslu. Ég hef ástæðu til að ætla að víða um land sé aðgengi að henni til muna greiðara en sums staðar gerist á höfuðborgarsvæðinu. Þannig gætum við farið í gegnum aðra þætti. Við skulum fara í gegnum nándina við grunnskólann og leikskólann og svo framvegis. Þetta er ekkert allt saman ein himinhrópandi himnasæla á þessu þéttbýlis- og vaxtarsvæði landsins. Það er bara langur vegur frá. Umræðan um skatt til samfélagsins og umræða sem byggir á því að þeir sem hafa kosið sér búsetu utan höfuðborgarsvæðisins eigi að greiða lægri skatt til samfélagsins en þeir sem búa hér er ekki alltaf eins og getur ekki runnið öll í eina átt. Við skulum bara leggja mat á kosti þess að lifa og starfa á Íslandi og þar með talið því svæði sem er utan þessa svokallaða höfuðborgarsvæðis.