144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:43]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð hans um þetta mjög svo umdeilda frumvarp sem við ræðum hér og ég hef sagt að það væri sennilega versti kostur sem valinn var af hæstv. ráðherra. Ég hef frekar styrkst í þeirri trú ef eitthvað er vegna þess að ég held ég geti næstum fullyrt að ég hef ekki heyrt einn einasta þingmann mæla því bót, ekki einn einasta. (Gripið fram í.) Það kann kannski að vera einn.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í er að í tíð síðustu ríkisstjórnar, þar sem margt var mjög vel gert, var komið hingað inn með frumvarp, sem ég man ekki hvort hv. þingmaður var flutningsmaður að væntanlega sem þáverandi fjármálaráðherra eða hvort það var Katrín Júlíusdóttir, þáverandi ráðherra ferðamála, nema þau hafi komið með það bæði, ég man ekki hvernig það var. En þá var tekið upp í fyrsta skipti gistináttagjald sem er búið að vera síðan. Í frumvarpinu kemur fram að það gefur einar 265 millj. kr. í heildartekjur eins og það er útfært í dag, þ.e. 100 kr. á hverja gistieiningu.

En í því frumvarpi — og það er erindi mitt í andsvari við hv. þingmann að biðja hann að lýsa því hvernig það var þar upphaflega — í upphaflega frumvarpinu, vegna þess að frumvarpið tók dálitlum breytingum í þinginu og endaði með þessum 100 kr. skatti á alla en ekki eftir flokkum. Mig langar að biðja hv. þingmann að rifja það aðeins upp fyrir okkur, þeim sem eru í þingsal og þeim sem eru að hlusta, hvernig það var hugsað með gistináttagjaldið á sínum tíma. Það voru þrír eða fjórir flokkar, og einmitt til að taka á því að láta það vera lægra hjá þeim sem selja ódýra gistingu, við getum þess vegna sagt svefnpokapláss, og hærra þá á stór hótel á höfuðborgarsvæðinu sem selja kannski gistingu á 700 dollara nóttina, eins og hv. þingmaður var að tala um hér áðan.