149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:59]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð yfir hennar sýn á samgönguáætlun. Það voru alla vega ekki notuð jafn stór orð og voru í minnihlutaáliti sem hv. þingmaður skrifar undir, þar sem fjallað er m.a. um ótímabæra og skyndilega umræðu meiri hluta nefndarinnar um veggjöld. Þá vildi ég bara minna á að í samgönguáætlun sem lögð var fram í haust, á bls. 36, er fjallað um afnotagjöld. Í fyrri umr. sem fór fram í þingsal tóku allir þingmenn allra flokka þátt í þeirri umræðu og ræddu m.a. um að hugsa út fyrir boxið um afnotagjöld, um veggjöld og voru reyndar flestallir frekar jákvæðir. Ég er svolítið undrandi á afstöðu minni hlutans í þessu samhengi og langar að fá aðeins útskýringar frá hv. þingmanni á þessari stefnubreytingu.

Það er jafnframt fjallað um í nefndarálitinu að það hafi verið of lítið gert og ég er sammála því. Hér er verið að bregðast við því, hafa aldrei verið settir meiri peningar. Hv. þingmaður var í ríkisstjórn í eitt ár. Þá komu ekki fram neinar hugmyndir um stórfellda aukningu í samgöngumálum og þess vegna spyr ég: Hvað hefur breyst?