152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[14:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í áætluninni stendur, með leyfi forseta:

„Til viðbótar má nefna að á gildistíma fjármálaáætlunar er í undirbúningi að reisa a.m.k. sex ný hjúkrunarheimili til að takast á við breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar og er áætlaður kostnaður þessara verkefna um 12 ma. kr.“

Það er því innbyggt í þessa áætlun gríðarlega mikil uppbygging, ég verð að leyfa mér að segja það. En í þessu samhengi — það er kannski of langt mál að fara út í það í stuttu andsvari, en við erum bara á ákveðnum villigötum í þessari umræðu. Við erum að horfa á þetta: Hvað á að setja marga steypufermetra í fjármálaáætlun í hjúkrunarheimili? Við þurfum að hugsa þetta kerfi upp á nýtt og fara að vista réttinn til að fá rými hjá fólkinu sjálfu, en ekki að góna bara á milljarðana í fjármálaáætlun, og treysta því að við getum með samstarfsaðilum tryggt að þessi úrræði verði til staðar. Svo þarf, eins og kemur fram í nýlegri skýrslu, að létta á þrýstingi eftir hjúkrunarrýmum vegna þess að við erum að bregðast áður en kemur að því að fólk þarf nauðsynlega á slíkri þjónustu að halda.