152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:29]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir sína ágætu ræðu. Það er auðvitað að mörgu að hyggja. Hv. þingmaður talaði svolítið um almannatryggingakerfið og það er auðvitað sláandi staðreynd að þrátt fyrir fyrirheit í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar um annað þá verður ekki séð samkvæmt þessari fjármálaáætlun að það standi til að auka réttindi fólks þegar kemur að bótum almannatrygginga á kjörtímabilinu. Það verður ekki séð. Það er fyrst og fremst bara kerfislægur vöxtur sem er gert ráð fyrir í útgjöldum til þessara málaflokka. Eins sé ég hér á bls. 99, þar sem fjallað er um NPA-samninga, að framlög vegna NPA-samninga eigi að aukast varanlega um 320 millj. kr. frá árinu 2023 til að standa straum af gildandi samningum. Ég fæ ekki betur séð af þessu en að það standi einungis til að standa straum af gildandi samningum en ekki að fjölga samningum. Um leið er þetta ríkisstjórn sem barði sér á brjóst og var með miklar yfirlýsingar um að lögfesta loksins samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Ég veit svo sem ekki hvenær það á að gerast eða hvernig því verður fylgt eftir á þessu kjörtímabili, ætli það komi ekki fram einhver áform um að fylgja slíku eftir kannski á síðasta ári kjörtímabilsins og næsta ríkisstjórn geti þá séð um það. En mig langar kannski bara að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns, sem hefur fylgst vel með þróun almannatryggingakerfisins og útgjalda til þess, hvað honum finnst um þessa fjármálaáætlun og þessi málefnasvið með tilliti til þeirra yfirlýsinga sem fram komu í kosningabaráttunni af hálfu þeirra sem nú eru þingmenn og ráðherrar stjórnarmeirihlutans.