152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar spurningar og hugleiðingar sem við höfum áður rætt og ég er í grunninn algerlega sammála. Við sinnum miklu starfi á sviði menningar og lista í gegnum utanríkisþjónustuna, sérstaklega og fyrst og fremst sendiráðin. Sendiráðin hafa verið gríðarlega mikil verðmæti fyrir menningu og listir. Þau opna dyr fyrir þessa aðila. Fyrir utan alla þá viðburði sem þar eru, sem síðan er hægt að nýta íslenska menningu og list til að vera þátttakendur í, þá eru þau líka bara vettvangur, þetta er svið fyrir okkar aðila til að spreyta sig annars staðar. Síðan erum við líka í mikilli samvinnu við Íslandsstofu og þau hafa verið að leggja aukna áherslu á listir og skapandi greinar. Listir og skapandi greinar eiga auðvitað mjög stóran þátt í því að skapa ímynd og viðhorf til lands og þjóðar. Þetta nýja samkomulag stjórnvalda og Íslandsstofu um markaðsverkefnið Skapandi Ísland markar ákveðin þáttaskil í kynningu á íslenskri menningu erlendis. Við erum að leggja til 90 millj. kr. árlega til ársins 2025. Þannig er hægt að ráðast í umfangsmeiri kynningar en áður. Við erum því í raun að taka nýtt og stærra skref og gera áætlanir líka til lengri tíma vegna þess að þetta er samningur til lengri tíma. Hér erum við að stuðla að markvissri stefnumótun og samráði milli stjórnvalda, Íslandsstofu, miðstöðva lista og skapandi greina og fagfólks. Bara til að nefna það, fyrst ég á 15 sekúndur eftir, þá erum við með tæplega 150 menningarviðburði í ár í gegnum sendiskrifstofur okkar sem þó eru náttúrlega ekki í öllum löndum. Við eigum því að gera enn betur og við eigum að sækja fram. Við erum að gera það. Aftur endurspeglar þetta ekki bara og skýrir sál okkar sjálfra (Forseti hringir.) heldur varpar það henni líka fram gagnvart öðrum þjóðum.