135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[14:59]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hafi ég skilið rétt þá hugmynd sem lögð var fram hér um samgönguáætlanir á nú að vera með samhangandi fjögurra ára áætlun og tólf ára áætlun og samþykkja þær báðar í einu. Í lok síðasta kjörtímabils var eingöngu samþykkt fjögurra ára áætlun en hin var látin bíða og talað var um að gera hana strax eftir kosningar. Ég hafði því treyst á að þessi áætlun kæmi til endurskoðunar í lok ársins en fyrr koma þó flýtiframkvæmdir sem ríkisstjórnin hefur tekið ákvarðanir um einkum á Vestfjörðum og ég fagna því að þær skuli vera í farvatninu.

Það hefur verið útbreiddur misskilningur, og ég heyrði það hér í frammíkalli, að valkosturinn væri sá að menn gætu ekið Hvalfjörðinn. Ég skora nú á þá sem hafa þá hugmynd að íhuga hvað gerðist ef Hvalfjarðargöngunum yrði lokað í smátíma. Ég er hræddur um að menn yrðu í miklum vandræðum vegna þess einfaldlega að þeir fimm til sex þúsund bílar sem nú fara um Hvalfjarðargöngin að meðaltali á dag eiga enga möguleika á að fara Hvalfjarðarveginn. Það er hluti af rökunum fyrir því að óhjákvæmilegt er að breyta þessu vegna breyttra aðstæðna, viðurkenning á því að mál hafa þróast með allt öðrum hætti en gert var ráð fyrir í byrjun.

Menn geta svo haldið áfram hártogunum og sagt að alls staðar annars staðar þar sem lögð hafa verið göng sé það ekki valkostur að fara aðra leið. Það er engan veginn rétt. Stóran hluta af árinu er fært frá Siglufirði yfir í Ólafsfjörð landleiðina. Við erum ekki að tala um það, við erum að tala um að eingöngu er verið að skattleggja eina leið og það er verið að fara í stórframkvæmdir m.a. á Reykjanesbraut sem ekki er settur vegaskattur fyrir. Menn hafa verið með hugmyndir um þverun á Miklubraut og við getum líka tekið Sæbrautarframkvæmdirnar sem eru miklu dýrari en Hvalfjarðargöngin en hafa ekki þurft að sæta sérstakri gjaldtöku.

Ég ætla aftur á móti að axla þá ábyrgð að skoða tekjur af umferð og fara yfir með hvaða hætti við öflum fjár til að geta haldið uppi öflugum samgöngubótum (Forseti hringir.) eins og ég hef verið að berjast fyrir bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.