146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[16:14]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég ætlaði að segja ákveðna hluti en ég verð samt í tilefni af ræðu hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar að nefna það að t.d. ADHD er sjúkdómur, það er taugaröskun í framheila, það er ekki hegðunarvandi. Þunglyndi er efnaskiptasjúkdómur. Þeir sjúkdómar og raskanir hafa ekkert með útihlaup að gera, en að sjálfsögðu hjálpar heilbrigt líferni og allar forvarnir verulega þegar fólk tekst á við slíka sjúkdóma og raskanir.

Nokkrir hv. þingmenn hafa farið ágætlega yfir tölur og upplýsingar varðandi þetta. Margir sem hafa búið langdvölum erlendis hafa orðið varir við það þegar þeir koma til baka að streitan er að yfirkeyra okkur Íslendinga. Streita er bráðsmitandi. Hún smitar börnin okkar. Einhver sagði, mér fannst það nokkuð gott, að við ættum kannski að gera meira af því að hlusta á líkamann og anda að okkur lífinu. En það eitt og sér læknar ekki alvarlega sjúkdóma sem við erum að ræða um hér.

Aftur að því sem ég ætlaði að segja. Ég horfði á kvöldfréttir Stöðvar 2 í gær. Þar var viðtal við íslenskan sérfræðing sem starfar í Ósló. Hún nefndi að lyfjagrunnur landlæknis væri meingallaður og að hún hefði ítrekað bent á það. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist skoða það mál enn frekar og grípa til aðgerða. Þarna liggja ábendingar fyrir og ætti að vera hægt að skoða þær.

Ég vil taka undir það sem fleiri hafa sagt varðandi bætt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Það er mjög mikilvægt og að biðlistar í greiningar verði styttir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir enn frekari úrbótum (Forseti hringir.) á aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og einnig varðandi aðgerðir (Forseti hringir.) gagnvart því að stytta biðlista til greininga. Það væri áhugavert að heyra.